Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   þri 18. maí 2021 19:59
Brynjar Ingi Erluson
England: Cancelo skúrkurinn er Brighton vann Englandsmeistarana
Dan Burn skoraði sigurmarkið en Brighton hrökk í gírinn í þeim síðari
Dan Burn skoraði sigurmarkið en Brighton hrökk í gírinn í þeim síðari
Mynd: EPA
Brighton 3 - 2 Manchester City
0-1 Ilkay Gundogan ('2 )
0-2 Phil Foden ('48 )
1-2 Leandro Trossard ('50 )
2-2 Adam Webster ('72 )
3-2 Daniel Burn ('76 )
Rautt spjald: Joao Cancelo, Manchester City ('10)

Brighton lagði Manchester City að velli, 3-2, í næst síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld en leikurinn fór fram á AMEX-leikvanginum. Þetta var aðeins sjötta tap City á tímabilinu.

Englandsmeistararnir voru ekki lengi að komast yfir en Ilkay Gündogan skoraði með skalla eftir laglega fyrirgjöf frá Riyad Mahrez á 2. mínútu.

Aðeins átta mínútum síðar var Joao Cancelo rekinn af velli eftir að hann missti boltann frá sér er Danny Welbeck var að sleppa í gegn og tók svo Welbeck með sér í jörðina. Rautt spjald á Cancelo.

Staðan var 1-0 fyrir City í hálfleik og í byrjun þess síðari bætti Phil Foden við öðru marki. Hann keyrði af eigin vallarhelmingi upp völlinn, fór illa með Ben White áður en hann skoraði örugglega.

Brighton kom þó til baka. Leandro Trossard minnkaði muninn tveimur mínútum síðar eftir mistök frá Rodri áður en Adam Webster jafnaði metin átján mínútum fyrir leikslok.

Webster skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu eftir fyrirgjöf frá Pascal Gross. Fjórum mínútum síðar kom sigurmarkið í leiknum en það gerði Daniel Burn.

Ederson varði fyrra skot Burn en hann fékk aðra tilraun til að skora og nýtti færið í þetta sinn. Ótrúleg endurkoma hjá Brighton gegn meisturunum.

City reyndi og reyndi undir lokin en ekkert gekk upp og lokatölur því 3-2 fyrir Brighton í hörkuleik. Brighton er í 15. sæti með 41 stig.
Athugasemdir
banner
banner