mán 18. júní 2018 14:30
Magnús Már Einarsson
Nígería án tveggja markvarða - Yngsti markvörður La Liga í markinu
Icelandair
Francis Uzoho.
Francis Uzoho.
Mynd: Getty Images
Carl Ikeme er að glíma við hvítblæði.
Carl Ikeme er að glíma við hvítblæði.
Mynd: Getty Images
Hinn 19 ára gamli Francis Uzoho er aðalmarkvörður Nígeríu á HM í Rússlandi. Uzoho fékk sénsinn þar sem markverðir Nígeríu undanfarin ár eru fjarri góðu gamni.

Carl Ikeme, markvörður Wolves og markvörður nígeríska liðsins undanfarin ár, er að glíma við hvítblæði en leikmenn íslenska landsliðsins sendu honum góðar kveðjur í gær.

Vincent Enyeama, sem er leikjahæsti leikmaður Nígeríu í sögunni með 101 landsleik, íhugaði að koma aftur í landsliðið eftir að Ikeme veiktist í fyrra.

Enyeama hætti að spila með landsliði Nígeríu árið 2015 en hann var að skoða endurkomu. Hinn 35 ára gamli Enyeama er hins vegar félagslaus og hefur verið að glíma við meiðsli. Því varð ekkert að endurkomu hans.

Því kom það í hlut Uzoho að vera aðalmarkvörður á HM. Uzoho er fæddur í október 1998 en hann hóf fótboltaferil sinn í akademíu í Katar.

Uzoho byrjaði að æfa stöðu sóknarmanns en hann færði sig í markið þegar hann var ellefu ára. 14 ára gamall var Uzoho í nígeríska hópnum sem vann HM U17 ára landsliða.

Í október í fyrra varð hann yngsti erlendi markvörðurinn í sögunni til að spila í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni, þegar hann lék með Deportivo La Coruna gegn Eibar, þá 17 ára.

Uzoho spilaði tvo leiki með Deportivo í spænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu en hann lék aðallega með B-liði félagsins í spænsku C-deildinni í vetur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner