Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   þri 18. júní 2019 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Copa America: Alexis Sanchez skoraði í stórsigri gegn Japan
Mynd: Getty Images
Japan 0 - 4 Síle
0-1 Erick Pulgar ('41)
0-2 Eduardo Vargas ('54)
0-3 Alexis Sanchez ('82)
0-4 Eduardo Vargas ('83)

Síle var við stjórn stóran hluta leiksins og lenti ekki í miklum vandræðum í fyrstu umferð Copa America. Færanýting Síle var til fyrirmyndar.

Liðið mætti Japan í C-riðli en Japan er ein af tveimur utanaðkomandi þjóðum á mótinu ásamt Katar, sem byrjaði mótið á 2-2 jafntefli gegn Paragvæ.

Erick Pulgar skoraði með skalla eftir hornspyrnu á 41. mínútu og tvöfaldaði Eduardo Vargas forystuna snemma í síðari hálfleik. Skot Vargas fór af varnarmanni í bláhornið þar sem markvörður Japana náði ekki til knattarins.

Japanir reyndu að svara fyrir sig en varnarleikur Síle sterkur og skoraði Alexis Sanchez þriðja markið með góðum skalla undir lok leiksins. Alexis var hvergi smeykur og skutlaði sér í boltann með hausinn á undan til að stanga hann inn.

Einni mínútu síðar gerði Vargas fjórða mark Síle. Hann lyfti knettinum þá laglega yfir markvörð Japana sem fór út í furðulega langt skógarhlaup.

Úrúgvæ og Ekvador eru einnig í riðlinum en viðureign þeirra lauk með 4-0 sigri Úrúgvæ.
Athugasemdir
banner
banner
banner