Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 18. júní 2019 20:54
Arnar Helgi Magnússon
HM kvenna: Marta hetja Brasilíu - Kerr með fernu
Leikmenn Ástralíu fagna einu marka Kerr í kvöld.
Leikmenn Ástralíu fagna einu marka Kerr í kvöld.
Mynd: Getty Images
Marta var hetjan í kvöld
Marta var hetjan í kvöld
Mynd: Getty Images
Ítalía, Ástralía og Brasilía eru öll með öruggt sæti í 16-liða úrslitum Heimsmeistaramóts kvenna eftir úrslit kvöldsins í C-riðlinum.

Öll þessi lið enda með sex stig en Ítalía hirðir toppsætið með bestu markatöluna. Brasilía fer áfram þrátt fyrir að enda í þriðja sæti en fjögur lið með besta árangurinn í þriðja sæti fara áfram í 16-liða úrslitin.

Ítalía vinnur riðilinn þrátt fyrir tap
Fyrri hálfleikurinn var rólegur en heilt yfir voru Ítalar betri og fengu tvö mjög fín tækifæri til þess að setja boltann í netið.

Hvorugu liði tókst þó að skora áður en að flautað var til hálfleiks. Brassar komu líflegir inn í síðari hálfleikinn og Andressinha setti boltann í slána úr aukaspyrnu þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Brasilía fékk vítaspyrnu á 74. mínútu þegar Elena Linari braut á Debinha innan teigs. Klár vítaspyrna.

Hin reynslumikla Marta fór á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi framhjá markverði Ítala. Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum en lokamínúturnar voru ansi bragðdaufar

Ferna frá Kerr og fyrsta mark Jamaíka í sögu HM
Ástralía og Jamaíka mættust í hinum leik riðilsins og það var í raun aldrei spurning hvort liðið myndi vinna.

Sam Kerr fór á kostum í leiknum og skoraði fjögur mörk. Hún kom Ástralíu yfir á 11. mínútu leiksins þegar að hún skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Kerr var aftur á ferðinni á markamínútunni þegar að hún tvöfaldaði forystu Ástralíu með sínu öðru marki, öðru skallamarki meira að segja!

Það var síðan söguleg stund í upphafi síðari hálfleiks þegar Havana Solaun minnkaði muninn fyrir Jamaíka en þetta var fyrsta mark liðsins á HM í sögunni.

Þetta mark kveikti örlitla von hjá stuðningsmönnum Jamaíka en Kerr slökkti þá veiku von tuttugu mínútum síðar þegar að hún fullkomnaði þrennu sína.

Hún bætti síðan við sínu fjórða marki á 83. mínútu leiksins og var það síðasta mark leiksins.

Ítalía 0 - 1 Brasilía
0-1 Marta ('74 , víti)

Jamaíka 1 - 4 Ástralía
0-1 Samantha Kerr ('11 )
0-2 Samantha Kerr ('42 )
1-2 Havana Solaun ('49 )
1-3 Samantha Kerr ('69 )
1-4 Samantha Kerr ('83 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner