þri 18. júní 2019 13:47
Elvar Geir Magnússon
KR til Noregs, Breiðablik til Liechtenstein og Stjarnan til Eistlands
Gunnleifur Gunnleifsson mætir sínu fyrrum félagi
Bikarmeistarar Stjörnunnar fara til Eistlands.
Bikarmeistarar Stjörnunnar fara til Eistlands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnleifur fer til Liechtenstein.
Gunnleifur fer til Liechtenstein.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nú rétt í þessu var dregið í fyrstu umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar en þrjú íslensk lið voru í pottinum. Dregið var í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss.

Stjarnan var í efri styrkleikaflokki í drættinum á meðan Breiðablik og KR voru í neðri styrkleikaflokki.

KR mun mæta Molde. Fyrri leikurinn verður í Noregi en Molde hafnaði í öðru sæti norsku deildarinnar í fyrra.

Breiðablik mun leika gegn FC Vaduz frá Liechtenstein en liðið tekur þátt í svissnesku deildinni. Fyrri leikurinn verður á Kópavogsvelli. Gunnleifur Gunnleifsson markvörður Blika og Guðmundur Steinarsson aðstoðarþjálfari léku með Vaduz eitt tímabil fyrir tíu árum.

Bikarmeistarar Stjörnunnar leika gegn Levadia Tallinn sem endaði í öðru sæti eistnesku deildarinnar. Fyrri leikurinn verður í Garðabænum. Þetta er annað árið í röð sem Stjarnan mætir liði frá Eistlandi. Í fyrra sló liðið út Nömme Kalju samtals 3-1.

Leikið verður 11. og 18. júlí
Molde - KR
Breiðablik - Vaduz
Stjarnan - Levadia Tallinn


Arnór Ingvi gegn Gauja Þórðar?
Íslendingaliðið Norrköping var í pottinum í dag. Guðmundur Þórarinsson spilar með Norrköping sem mætir St Patrick's Athletic frá Írlandi.

Malmö, félag Arnórs Ingva Traustasonar, mun mæta Ballymena frá Norður-Írlandi eða NSÍ frá Færeyjum. Ballymena og NSÍ leika í umspili um að komast í forkeppnina en þjálfari NSÍ er Guðjón Þórðarson.
Athugasemdir
banner
banner
banner