mið 18. júlí 2018 20:21
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Dómarinn hjálpaði til við að slá Val úr leik
Mynd: Richard Sagen/Adresseavisen
Mynd: Richard Sagen/Adresseavisen
Rosenborg 3 - 1 Valur
1-0 Nicklas Bendtner ('55, víti)
2-0 Anders Trondsen ('72)
2-1 Kristinn Freyr Sigurðsson ('85, víti)
3-1 Nicklas Bendtner ('94, víti)
Rautt spjald: Patrick Pedersen, Valur ('94)

Valur heimsótti Rosenborg í síðari leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar eftir 1-0 sigur á Hlíðarenda fyrir viku.

Leikurinn í Noregi gekk fyrir sig eins og við mátti búast þar sem heimamenn stjórnuðu leiknum og voru mikið með boltann á meðan Valsarar spiluðu agaðan varnarleik og beittu skyndisóknum.

Íslandsmeistararnir héldu hreinu í fyrri hálfleik en ekki leið á löngu þar til Rosenborg fékk afar ódýra vítaspyrnu í síðari hálfleik. Boltinn fór þá í höndina á Hauki Páli Sigurðssyni innan vítateigs, en Haukur hélt handleggjunum alveg að líkamanum.

Nicklas Bendtner skoraði af miklu öryggi úr vítaspyrnunni þrátt fyrir að Anton Ari Einarsson hafi náð góðri skutlu í rétt horn. Heimamenn juku sóknarþungan í kjölfarið og tvöfölduðu forystuna rúmum stundarfjórðungi síðar þegar Anders Trondsen skallaði fyrirgjöf frá Bendtner í netið.

Valsarar voru þó ekki á því að gefast upp og fengu dæmda vítaspyrnu fyrir hendi á lokakaflanum. Kristinn Freyr fór á punktinn og skoraði mikilvægt útivallarmark sem nægði til að koma liðinu áfram í næstu umferð. Vítaspyrnudómurinn átti ekki rétt á sér þar sem boltinn virtist fara í andlit varnarmanns Rosenborgar, ekki höndina.

Heimamenn brugðust við markinu með því að setja Matthías Vilhjálmsson inná.

Gleðin var því miður ekki langlíf fyrir Val því heimamenn fengu dæmda ótrúlega tæpa vítaspyrnu í uppbótartímanum. Patrick Pedersen fékk rautt spjald fyrir mótmæli eftir að hafa farið meiddur af velli og varði Anton Ari vítaspyrnu Bendtner í slána og inn.

Rosenborg mætir því Celtic í næsta leik og eiga Valsarar allan rétt á því að vera öskureiðir með dómgæsluna í naumu tapi gegn norsku meisturunum.
Athugasemdir
banner
banner
banner