banner
   fim 18. júlí 2019 19:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Brynjar Gauti: Verður að hafa trú þangað til dómarinn flautar
Brynjar Gauti Guðjónsson.
Brynjar Gauti Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Brynjar gerði sigurmarkið.
Brynjar gerði sigurmarkið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar Gauti Guðjónsson var hetja Stjörnunnar þegar liðið hafði betur í einvígi sínu gegn Levadia Tallinn frá Eistlandi í forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

Sjá einnig:
Evrópudeildin: Ótrúleg dramatík - Stjarnan mætir Espanyol

Varnarmaðurinn Brynjar Gauti skoraði sigurmarkið í einvíginu á 123. mínútu. Leikurinn var framlengdur og komst Levadia yfir í framlengingunni og virtist vera á leiðinni áfram áður en Brynjar Gauti skoraði.

„Tilfinningin er bara ákaflega góð, það er ekki hægt að segja neitt annað. Það er lygilegt að hafa klárað þetta á 120. mínútu," sagði Brynjar Gauti við Fótbolta.net í kvöld.

„Við vorum mjög óánægðir með mörkin sem við fengum á okkur og það er stórt spurningarmerki með vítið sem þeir fengu í framlengingunni. Hlutirnir voru ekki alveg að ganga með okkur en það ótrúlega gott að klára þetta."

Brynjar var því næst beðinn um að lýsa sigurmarkinu sem hann skoraði.

„Hilmar á geggjaða hornspyrnu eins og vanalega og Jói (Laxdal) á frábært hlaup á nærstöngina og nær að flikka honum á markið. Þeir ná að bjarga honum á línu, svo fer boltinn í loftið eitthvað. Ég hendi mér inn í þvöguna og næ að setja ennið í boltann fyrstur. Hann dettur inn."

„Við áttum kannski ekki marga sénsa eftir, en maður verður að hafa trú þangað til dómarinn flautar af."

Sem betur fer náum við að klára þetta
Þetta var hörkueinvígi og réðist ekki fyrr en á lokasekúndunum í framlengingu í seinni leiknum.

„Við hefðum getað gert aðeins betur í að klára þetta. Við fengum á okkur pirrandi útivallarmark í fyrri leiknum eftir að hafa verið með leikinn þokkalega í okkar höndum. Þeir skora aftur eftir fast leikatriði í kvöld þegar þeir komast yfir í kvöld. Það kveikti aðeins í þeim, en við vörðumst ágætlega og náðum að skora gott mark, 1-1."

„Ég er frekar pirraður að við skyldum ekki klára þetta í stöðunni 1-1. Þeir fóru að henda hafsentunum sínum fram og negla löngum inn. Þeir ná að skora eitt mark eftir það, eitthvað sem við hefðum átt að gera betur í."

„Mér fannst vera jafnræði í framlengingunni. Þeir fá ódýra vítaspyrnu, en sem betur fer náum við að klára þetta," sagði varnarmaðurinn.

Espanyol næst
Næsti mótherji Stjörnunnar í Evrópudeildinni verður spænska úrvalsdeildarfélagið Espanyol.

„Það er náttúrulega magnað að fá svoleiðis einvígi. Fyrir okkur sem leikmenn og fyrir Stjörnuna sem félag, að fá svona lið á Samsung-völlinn og fá að spila á svona velli og á móti svona liði, það er einstakt."

„Við þurfum að endurheimta í kvöld. Við förum allavega sáttir á koddann," sagði Brynjar Gauti Guðjónsson, varnarmaður Stjörnunnar, við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner