fös 13. ágúst 2021 15:22
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Pálmi tæpur eftir slæma tæklingu - „Ég hreinlega skil ekki alveg tilganginn í þessu"
Pálmi Rafn.
Pálmi Rafn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik á Vikingsvelli fyrr í sumar.
Í leik á Vikingsvelli fyrr í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður KR, fór meiddur af velli gegn Víkingi í Mjólkurbikarnum í gær. Nikolaj Hansen, leikmaður Víkings, braut á Pálma eftir rúmlega klukkutíma og uppskar gult spjald fyrir brotið.

Pálmi fór skömmu síðar meiddur af velli og sást vel haltur eftir leikinn. Fótbolti.net heyrði í Pálma í dag.

Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 -  1 KR

„Ég veit ekki alveg hvernig staðan er. Ökklinn er ekkert spes en hann verður örugglega fljótur að koma til, ég reikna fastlega með því," sagði Pálmi Rafn.

Útilokar ekki næsta leik
Ertu búinn að útiloka að spila gegn HK á mánudaginn?

„Þetta gerðist bara í gær, það er dagurinn í dag, morgundagurinn og sunnudagurinn eftir. Það getur alveg gerst eitthvað á þeim tíma. Það er stutt í næsta leik en ég útiloka ekki neitt."

Skilur ekki alveg tilganginn
Hvað gerist í þessu atviki?

„Ég hreinlega skil ekki alveg tilganginn í þessu. Ég sný baki í völlinn og er að fara senda boltann til baka. Mér fannst þetta ekki alveg ástæða til að koma svona inn í þetta einvígi. Ökklinn einhvern veginn lendir undir öllu og þetta var mjög vont, enda lá ég lengi eftir. Svo er þetta kannski bara væll í mér og ég verð kannski bara orðinn klár fyrir næsta leik."

Slysin gerast
Ertu mjög ósáttur með þessa tæklingu?

„Ég gef honum það að hann baðst afsökunar á þessu og ég reikna með því að þetta hafi ekki ætlað að fara svona harkalega í þessa tæklingu. Það gerast slysin, ég vona og trúi að þetta hafi ekki verið ásetningur. Ég sá náttúrulega ekki tæklinguna en leið eins og hún væri frekar harkaleg og óþörf. Þetta er fótbolti og það verður að vera smá harka í þessu svo lengi sem menn eru ekki að reyna meiða menn."

Einn dagur í einu
Hvernig verða næstu dagar hjá þér?

„Ég er ekki að fara gera neitt í dag og svo verð ég að sjá hvernig ég er á morgun og hinn. Ég tek einn dag í einu og sé hvað ég get gert, geri það sem ég get gert og hlusta á sjúkraþjálfarann í því. Á meðan er ég að bryðja bólgueyðandi og skella ökklanum í ísbað, við sjáum bara hvað það nær langt."

Algjör 'off' dagur hjá KR-ingum
Víkingur vann 3-1, hvað fannst þér klikka í ykkar leik?

„Mér fannst við lenda á algjörum 'off' degi hjá okkur. Það er hundleiðinlegt að það geri í bikarleik því þú færð ekkert annan séns. Mér fannst við ekki vera að spila okkar leik, þeir voru grimmari í öllum návígum og öllum seinni boltum, þeir voru fljótir að koma í okkur og á móti vorum við of langt frá þeim varnarlega."

„Við sköpuðum okkur heldur betur færi til að skora fleiri mörk en heilt yfir voru þeir betri en við og stundum verður maður kyngja þeim og hrósa þeim fyrir góðan leik. Það var leiðinlegt að hitta á 'off' dag hjá okkur, mér fannst við vera spila töluvert undir getu,"
sagði Pálmi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner