Viðræðum á milli Napoli og Galatasaray miðar loksins áfram en félögin eru að nálgast samkomulag um kaupverð fyrir Victor Osimhen.
Þessi nígeríska markavél sinnti lykilhlutverki fyrir tyrknesku risana á síðustu leiktíð, þegar þeir unnu bæði deild og bikar í Tyrklandi.
Osimhen er 26 ára framherji sem hefur verið eftirsóttur af mörgum af bestu liðum Evrópu en virðist staðráðinn í því að fara aftur til Galatasaray, þar sem hann gerði frábæra hluti á lánssamningi á síðustu leiktíð.
Hann á tvö ár eftir af samningi við Ítalíumeistara Napoli en vill ekki spila aftur fyrir félagið.
Napoli og Galatasaray eru sammála um kaupverðið sjálft en eru að semja um hvernig sé hægt að dreifa greiðslunum. Þá heimtar Napoli að halda hluta af endursöluvirði leikmannsins og eru félögin einnig í viðræðum um hversu háu hlutfalli Ítalirnir munu halda af því.
Galatasaray endar á að greiða 40 milljónir evra strax fyrir Osimhen og 35 milljónir til viðbótar fyrir lok næsta árs. Þá fær tyrkneska stórveldið ekki leyfi til að selja leikmanninn áfram til annars félags í ítalska boltanum á næstu tveimur árum.
Osimhen skoraði 37 mörk og gaf 8 stoðsendingar í 41 keppnisleik á sínu fyrsta tímabili hjá Galatasaray. Þar áður skoraði hann 76 sinnum í 133 leikjum með Napoli og vann Ítalíumeistaratitilinn með liðinu 2023.
Athugasemdir