Gríntilboð í Ederson - Trafford gæti verið á heimleið - Simons í ensku úrvalsdeildina?
   fös 18. júlí 2025 11:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Luke Rae um erfið meiðsli: Svolítið eins og með Formúlu 1 bíl
Luke Rae.
Luke Rae.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Luke í leik gegn Breiðabliki í sumar.
Luke í leik gegn Breiðabliki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Styttist í endurkomu.
Styttist í endurkomu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er óhætt að segja að KR hafi saknað kantmannsins Luke Rae síðustu vikur. Luke hafði farið frábærlega af stað í Bestu deildinni áður en hann meiddist. Síðasti leikur hans var 10. maí gegn ÍBV í 4-1 sigri á Þróttaravelli.

Luke, sem er leifursnöggur leikmaður, var gríðarlega mikilvægur í því sem Óskar Hrafn Þorvaldsson var að gera með KR-liðið og það hefur sést á sóknarleik liðsins að hans er sárt saknað.

Englendingurinn er að glíma við erfið meiðsli en hann vonast til að geta verið með í næsta leik sem eru góðar fréttir fyrir KR.

„Ég hef verið að glíma við meiðsli ofarlega aftan í læri síðan í janúar, nánar tiltekið á þeim punkti þar sem lærið tengist rassvöðvanum. Því miður hefur þetta verið á sama stað í hvert skipti sem þetta hefur komið upp, sem hefur gert bataferlið erfiðara. En við höfum gefið okkur tíma til að skilja vandamálið almennilega og einbeita okkur að réttri endurhæfingu. Ég er bjartsýnn á það hvernig þetta hefur verið að ganga og hvert þetta er að stefna," segir Luke við Fótbolta.net.

„Svona meiðsli taka dágóðan tíma að lagast alveg. Sú er raunin með flest vöðvameiðsli. Þegar vöðvi rifnar þá aukast líkurnar talsvert á því að það gerist aftur. Mín meiðsli eru á erfiðum stað en margir fljótir íþróttamenn lenda í þessu."

„Sem fljótur leikmaður með mikinn sprengikraft þá veit ég að ég er alltaf að ýta á líkamann minn alveg út á ystu nöf. Þetta er svolítið eins og Formúlu 1 bíll; þegar allt gengur á háu stigi eru hlutirnir alltaf nálægt brúninni ef svo má segja. Þess vegna er ég að leggja áherslu á það að þessu sinni á að vera snjall í endurhæfingunni, styrktarþjálfun og bata svo ég geti komið sterkari til baka og haldið heilsu til langs tíma."

Stefnir á að mæta aftur gegn Breiðabliki
Meiðslin eru af þeim toga að það þurfti að gefa þessu tíma svo það myndi lagast alveg og myndi ekki hafa áhrif á Luke næstu árin. Síðustu skoðanir hafa litiið vel út.

„Ég er að stefna á að mæta aftur gegn Breiðabliki í næsta leik, taka vonandi einhvern þátt þar. Ef það er of snemmt fyrir mig, þá er ég viss um að ég verði tilbúinn fyrir leikinn gegn ÍBV," segir Luke.

„Ég er að taka skref fram á við í hverri viku. Síðustu skoðanir hafa sýnt það að ég er að verða sterkari aftan í læri. Ég hef hlaupið af góðum ákafa í nokkrar vikur núna og undanfarið hef ég verið að æfa aðeins með liðinu. Þetta er á leið í rétta átt og ég get ekki beðið eftir því að komast aftur út á völlinn."

Frábærir hlutir taka oft tíma
Hann segir það hafa verið erfitt að fylgjast með liðinu utan frá en KR er núna bara einu stigi frá fallsæti.

„Þetta hefur verið rússíbani tilfinningalega. Það er pirrandi að horfa úr stúkunni og ná ekki að hjálpa liðinu. En á sama tíma hef ég fulla trú á liðinu og ég veit að við munum ná að snúa genginu við og enda tímabilið vel. Óskar Hrafn er með skýrt plan og allir eru með í því. Það þarf ekki annað en að benda á það sem hann gerði með Gróttu og Breiðablik - það segir sitt."

„Við erum að gera mikið rétt. Úrslitin hafa ekki endurspeglað frammistöðuna. Eins og ég vil segja, þá taka frábærir hlutir oft tíma. Þegar þetta smellur, þá tel ég að það verði erfitt að stoppa okkur," sagði þessi öflugi leikmaður að lokum en það styttist í það að stuðningsmenn KR geti farið að öskra „Luke, Luke, Luke!" úr stúkunni á nýjan leik.
Athugasemdir
banner