Einhver óvæntustu félagaskipti síðustu ára í íslensku boltanum áttu sér stað í morgun þegar KA tilkynnti um komu Birnis Snæs Ingasonar frá Halmstad í Svíþjóð.
Það eru aðeins tvö ár síðan Birnir var besti leikmaður Bestu deildarinnar með Víkingum en hann er núna mættur í KA, sem er á botni deildarinnar. Víkingur, hans fyrrum félag, er aftur á móti á toppnum. Því koma þessi skipti gríðarlega á óvart.
Það eru aðeins tvö ár síðan Birnir var besti leikmaður Bestu deildarinnar með Víkingum en hann er núna mættur í KA, sem er á botni deildarinnar. Víkingur, hans fyrrum félag, er aftur á móti á toppnum. Því koma þessi skipti gríðarlega á óvart.
Birnir fær býsna góðan samning hjá KA eins og Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri félagsins, viðurkenndi í samtali við Fótbolta.net fyrr í dag.
„Hann kemur og gerir samning við okkur til áramóta. Ég held að menn geti alveg lagt saman tvo og tvo, það að ná í prófíl eins og Birni, sem var valinn besti leikmaðurinn í deildinni fyrir átján mánuðum síðan, þú þarft alveg að telja upp úr dósapokunum til að láta það ganga heim og saman. En þetta er ekkert sem við ráðum ekki við og höfum ekki séð áður," sagði Sævar.
Kristján Óli Sigurðsson, sérfræðingur Þungavigtarinnar, segir Birni vera á ráðherralaunum hjá KA.
„Upp úr þurru, klukkan 22:15 í gærkvöldi, fæ ég veður af því að hann sé að skrifa undir megadíl við KA," sagði Kristján Óli. „Hann semur við KA út tímabilið og fær 10 milljónir í vasann, alvöru undirskriftarbónus, íbúð og bíl. Þetta er einhver 15 milljón króna pakki."
„Það er eins gott að KA haldi sér í deildinni," sagði Kristján en KA er sem stendur á botni Bestu deildarinnar.
Besta deildin klárast 25. október og verður Birnir því leikmaður félagsins í um þrjá mánuði - að minnsta kosti.
Athugasemdir