fim 18. ágúst 2022 14:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þá væru allir örugglega að tala um Liverpool núna"
Darwin Nunez.
Darwin Nunez.
Mynd: EPA
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool.
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Liverpool vann deildabikarinn og FA-bikarinn á síðustu leiktíð.
Liverpool vann deildabikarinn og FA-bikarinn á síðustu leiktíð.
Mynd: EPA
Liverpool er aðeins með tvö stig eftir tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er búið að gera jafntefli í báðum leikjum sínum til þessa, gegn Fulham og Crystal Palace.

Liverpool var með mikla yfirburði í öðrum leik sínum gegn Palace en endaði á því að gera jafntefli. Eftir leikinn var mikið rætt um rautt spjald sem Darwin Nunez, sóknarmaður Liverpool, fékk í byrjun seinni hálfleiks.

Liverpool spilaði tíu gegn ellefu í seinni hálfleiknum en náði samt að jafna. Það er spurning hvort þeir hefðu unnið leikinn ellefu gegn ellefu.

„Það er ekkert hægt að afsaka þetta á neinn hátt," sagði Stefán Marteinn Ólafsson, stuðningsmaður Chelsea, í hlaðvarpinu Enski boltinn þegar rætt var um rauða spjaldið á Nunez.

„Þetta er ógeðslega heimskulegt. Hvað er hann að gera? Þetta er algjör dómgreindarbrestur og óafsakanlegt," sagði Sæbjörn Þór Steinke.

Nunez var keyptur til Liverpool frá Benfica í sumar fyrir allt að 100 milljónir evra. Hann skoraði og lagði upp í fyrstu umferð en fann sig ekki alveg í þessum leik.

„Þetta er ekki boðlegt fyrir framhaldið, að skilja liðsfélaga sína eftir í skítnum," sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson.

Bras á Liverpool
Það hefur verið ákveðið bras á Liverpool í byrjun móts. Það eru mikil meiðslavandræði í gangi innan leikmannahópsins og úrslitin eru ekki búin að vera ákjósanleg.

Liverpool er strax byrjað að elta Manchester City í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.

„Ég veit ekki alveg hvað maður á að segja um þessa byrjun Liverpool. Ef Man Utd væri ekki í eins miklum skít og þeir eru þá væru allir örugglega að tala um Liverpool núna," sagði Stefán og tók Sæbjörn undir það.

„Ég veit ekki hvort það sé hægt að segja að United sé einhvern veginn að bjarga Liverpool með þessu."

„United er í hræðilegri stöðu en gæti samt sem áður verið fyrir ofan Liverpool eftir þrjár umferðir," sagði Stefán.

Næsti leikur Liverpool er gegn erkifjendunum í Man Utd næstkomandi mánudagskvöld. „Það eru mikil meiðsli hjá Liverpool en við getum gleymt því að United fái eitthvað úr þeim leik. Þetta verður 100 prósent Liverpool sigur," sagði Gummi.

„Við höfum séð ótrúlegri hluti gerast... ég sá ekki fyrir mér að Liverpool yrði með tvö stig eftir fyrstu tvær umferðirnar," sagði Stefán en það er hægt að hlusta á alla umræðuna í spilaranum hér fyrir neðan.
Enski boltinn - Sumir gengu of langt
Athugasemdir
banner
banner
banner