banner
   mán 18. september 2017 16:26
Magnús Már Einarsson
Jói Kalli um Klopp: Þetta er bannað á fyrsta þjálfaranámskeiði
Klopp gerði sjö breytingar fyrir leikinn um helgina.
Klopp gerði sjö breytingar fyrir leikinn um helgina.
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var gagnrýndur í Messunni á Stöð 2 Sport í gær. Klopp gerði sjö breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn gegn Burnley um helgina þar sem 1-1 jafntefli varð niðurstaðan.

„Svona reyndur stjóri eins og Klopp er að rótera hafsentunum sínum og markmanninum. Á fyrsta þjálfaranámskeiði hjá KSÍ er þetta bannað. Þarna þarftu stöðugleika. Veldu þá sem þú telur að séu bestu mennirnir í hafsentana og markmanninn. Hættu að rótera," sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, sérfræðingur í Messunni.

Loris Karius og Simon Mignolet hafa skipst á að verja mark Liverpool á tímabilinu.

„Ég skil ekki þetta með markmennina. Þú hlýtur að vita hvorn þú vilt hafa í marki?" sagði Ríkharður Daðason í Messunni.

„Ég held að hann hafi meiri áhuga á að hafa Karius í marki en hinn hafi ekki gert nægilega mikið af sér til að taka hann út. Hann er tvisvar búinn að nota þá afsökun að hann vilji aðeins hvíla hann. Hann hvíldi hann fyrir landsleikjahlé. Það er það skrýtnasta sem ég hef heyrt," sagði Guðmundur Benediktsson í Messunni.

Ragnar Klavan, varnarmaður Liverpool, fékk einnig að heyra það hjá Ríkharði.

„Af hverju er Ragnar Klavan í liðinu? Mér fannst hann vera óöruggur og ekki lesa leikinn heldur vel. Það er ekki eins og hann vinni það upp að vera hægari en aðrir með því að vera klókur. Ég sé ekki styrkinn," sagði Ríkharður.
Athugasemdir
banner
banner
banner