Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 18. september 2018 08:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þjálfarinn um Jón Dag: Augljóst að hann hefur spilað á Englandi
Jón Dagur byrjar vel með Vendsyssel.
Jón Dagur byrjar vel með Vendsyssel.
Mynd: Vendsyssel
Jón Dagur Þorsteinsson lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik með Vendsyssel í dönsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Jón Dagur, sem er aðeins 19 ára gamall, er í láni hjá Vendsyssel frá Fulham. Jón hafði verið að gera það gott með unglinga- og varaliði Fulham en í Danmörku fær hann að spreyta sig í aðalliðsfótbolta.

U21 landsliðsmaðurinn gerði sér lítið fyrir og lagði upp fyrsta mark leiksins á sunnudag, á 28. mínútu eftir flottan sprett. Stoðsendingu Jóns má sjá hér að neðan.

Vendsyssel var að spila gegn Hobro og voru Jón Dagur og félagar á heimavelli en gestirnir í Hobro jöfnuðu fyrir leikhlé. Það voru ekki fleiri mörk skoruð og niðurstaðan 1-1 jafntefli. Jón Dagur spilaði 83 mínútur.

Jens Berthel Askou, þjálfari Vendsyssel, hrósaði Jóni Degi í viðtali í leikslok.

„Við vissum að hann væri mjög ungur en við sáum það í þessum leik hvað hann getur fyrir okkar lið. Það er erfitt að halda í við hann, hann er frábær einn á einn og er jafnvígur á báða fætur," sagði þjálfarinn um Jón Dag og hélt hann hrósinu áfram.

„Það verður spennandi að fylgjast með honum. Hann er líka góður varnarlega og þrátt fyrir að hann sé ekki sá sterkasti líkamlega þá er hann ekki hræddur við að fara í einvígi. Það er augljóst að hann er búinn að vera að spila á Englandi."

„Hann er auðmjúkur og leggur hart að sér, hann er mikil gæði og getur náð langt í framtíðinni."

Vendsyssel er í 11. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar.


Athugasemdir
banner
banner
banner