Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 18. september 2019 12:30
Magnús Már Einarsson
Grétar Einarsson látinn
Grétar Einarsson.
Grétar Einarsson.
Mynd: Víðir Garði
Grétar Einarsson, fyrrum leikmaður Víðis í Garði, er látinn eftir harða en skammvinna baráttu við alvarleg veikindi.

Grétar er leikjahæsti leikmaður Víðis í efstu deild en hann fór í bikarúrslit með liðinu árið 1987. Grétar spilaði einnig þrjá leiki með A landsliði Íslands á ferli sínum.

Af Facebook síðu Víðis
Grétar Einarsson féll frá 16.september eftir harða en skammvinna baráttu við alvarleg veikindi.

Grétar er goðsögn hjá Víði Garði. Hann hóf ferilinn með Víði og var hluti af gullaldarliði Víðis sem spilaði í efstu deild árin 1985-1987 og 1991 og fór alla leið í bikarúrslit árið 1987.

Grétar er leikjahæsti leikmaður Víðis í efstu deild (ásamt Vilbergi Þorvaldssyni) með 71 leik og hefur jafnframt skorað flest mörk fyrir Víði í efstu deild, 18 talsins. Á ferli sínum lék Grétar alls 323 leiki og skoraði 159 mörk fyrir Víði. Grétar lék einnig með Keflavík, FH og Grindavík og spilaði 3 A-landsleiki.

Eftir að Grétar hætti að spila með meistaraflokki var hann aðstoðarþjálfari hjá liðinu og sat í stjórn félagsins í fjölda ára, bæði aðalstjórn og unglingaráði.

Skórnir voru samt alls ekkert komnir á hilluna því Grétar spilaði með Old Boys liði Keflavíkur/Víðis og vann nokkra Íslandsmeistaratitla með þeim.

Grétar Einarsson var frábær liðsmaður sem allir vildu hafa í sínu liði. Hann hafði mikið keppnisskap og sigurvilja og var mikill markaskorari. Það var líka alltaf stutt í grínið hjá Grétari og það var gaman að vera í kringum hann.

Knattspyrnufélagið Víðir Garði vottar fjölskyldu og vinum Grétars sínar dýpstu samúðarkveðjur.

Minningin um frábæran leikmann og góðan dreng lifir.

Hvíldu í friði Grétar. ❤️


Athugasemdir
banner
banner
banner