fös 18. október 2019 12:07
Magnús Már Einarsson
Klopp hló þegar hann var beðinn um ráð fyrir Solskjær
Mynd: Getty Images
Norskur fjölmiðlamaður spurði Jurgen Klopp, stjóra Liverpool, á fréttamannafundi í dag hvort hann hefði ráð fyrir kollega sinn Ole Gunnar Solskjær hjá Manchester United.

Solskjær er með lið Manchester United í 12. sæti í ensku úrvalsdeildinni fyrir helgina á meðan Liverpool situr á toppnum.

Klopp skellihló þegar hann var beðinn um að koma með ráð fyrir Solskjær til að snúa gengi United við.

„Heldur þú virkilega að þú getir komið fljúgandi frá Noregi og spurt mig um ráð? Nei, hann þarf ekki á því að halda," sagði Klopp í kjölfarið.

Klopp var einnig spurður að því hvort Ole Gunnar eigi að fá meiri tíma í starfi hjá Manchester United.

„Ég hef í raun ekki hugmynd um hans stöðu. Það er ekki mikilvægt hvað þið skrifið heldur er mikilvægt hvað stjórnin segir við hann. Ég hef enga skoðun á því," sagði Klopp.

„Ég vil að allir stjórar fái eins mikinn tíma í heiminum og hægt er en ekkert félag er tilbúið að bíða eftir velgengni. Eftir 29 leiki hjá mér þá var ekki 100% sátt um að ég væri fullkominn stjóri fyrir Liverpool."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner