Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 18. október 2022 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Hierro er nýr yfirmaður íþróttamála hjá Chivas
Mynd: Getty Images

Mexíkóska stórveldið Chivas er búið að ráða spænsku goðsögnina Fernando Hierro sem yfirmann íþróttamála.


Hierro er 54 ára gamall og gerði garðinn frægan sem varnarmaður Real Madrid og spænska landsliðsins.

Hann var einstaklega markheppinn miðvörður sem tók mikið af föstum leikatriðum og var óhræddur við að spretta upp völlinn til að taka þátt í sóknarleiknum.

Í heildina skoraði Hierro 127 mörk í 610 leikjum hjá Real og vann allt mögulegt með félaginu, meðal annars fimm spænska deildartitla og þrjá Meistaradeildartitla.

Eftir að hafa lagt fótboltaskóna á hilluna starfaði Hierro sem yfirmaður fótboltamála hjá spænska knattspyrnusambandinu í fjögur ár. Hann var ráðinn sem aðstoðarþjálfari Real Madrid í eitt tímabil 2014-15 og tók svo við stjórn hjá Real Oviedo 2016-17 áður en hann var fenginn aftur til spænska knattspyrnusambandsins.

Síðasta þjálfarastarf Hierro kom hjá spænska sambandinu þegar Julen Lopetegui var rekinn úr þjálfarastólnum aðeins tveimur dögum fyrir fyrsta leik Spánverja á HM 2018. Hierro var þá fenginn til að leiða liðið til leiks en Spánverjar voru slegnir út í 16-liða úrslitum eftir vítaspyrnukeppni gegn heimamönnum í Rússlandi. Hierro sagði af sér eftir tapið og sagðist ekki ætla að snúa aftur í starf sitt sem yfirmaður knattspyrnumála hjá spænska knattspyrnusambandinu.


Athugasemdir
banner
banner
banner