Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 18. nóvember 2018 21:00
Elvar Geir Magnússon
Hamren vissi að valið á Kolbeini yrði mjög umdeilt
Icelandair
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hamren og Freyr.
Hamren og Freyr.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erik Hamren og Freyr Alexandersson landsliðsþjálfarar voru meðvitaðir um að valið á Kolbeini Sigþórssyni í landsliðið yrði umdeilt. Kolbeinn hefur ekkert spilað alvöru félagsliðabolta undanfarin ár og er í frystikistunni hjá Nantes í Frakklandi.

Smelltu hér til að hlusta á 45 mínútna spjall við Frey í Innkasti frá Belgíu

Freyr segir að gagnrýnin hafi verið viðbúin.

„Já já. Það var augljóst. Við ræddum þetta mikið og lengi og vissum hvaða fylgifiskar kæmu með því að velja Kolbein. Sú umræða hefur verið í öllum glugganum og er bæði hundleiðinleg og þreytt en samt algjörlega skiljanleg. Fólk hefur skoðun á íslenska landsliðinu og eðlilegt að fólk tali um svona umdeilt val," segir Freyr.

„Það mun ekki koma í ljós fyrr en á næsta ári hvort þetta skili þeim tilætlaða árangri sem við horfum í. Ég held að allir Íslendingar séu sammála um það að Kolbeinn Sigþórsson er stórkostlegur fótboltamaður. Það efast enginn um það. Hvort það sé rétt að velja hann í hópinn, sérstaklega þegar fleiri eru heilir, er umdeilt og fólk má hafa skoðanir á því."

Freyr trúir því að Kolbeinn komi ferli sínum aftur á flug.

„Ég og Erik trúum því að þetta muni skila því að Kolbeinn komist frá Nantes og í klúbb á því leveli sem hann á að spila á. Við trúum á að það muni nýtast íslenska landsliðinu í framtíðinni því Kolbeinn er ekki gamall. Hann hefur verið þjakaður af meiðslum en á nóg eftir af sínum ferli, er heill heilsu og í góðu standi. Hann hefur verið stórkostlegur á æfingum og er með hæfileika sem fáir Íslendingar hafa," segir Freyr.

Hamren óhræddur við stórar ákvarðanir
Þetta er þriðji landsliðsglugginn þar sem Hamren velur Kolbein og Freyr segist sjá það glögglega að sóknarmaðurinn sé í átt að sínu fyrrum formi.

„Ég sé klárlega mun á honum og mesta muninn núna í þessum glugga. Hann er búinn að æfa reglulega með varaliði Nantes en áður var hann mikið í einstaklingsæfingum og hjá fitness þjálfurum. Hann er sneggri og skarpari í því sem hann er að gera. Gæðin hef ég alltaf séð á þessum æfingum."

Freyr segir að Hamren hugsi ekki út í skoðanir annarra um val hans.

„Hann er algjörlega óhræddur við að taka stórar ákvarðanir. Ég held að þetta Kolbeinsmál lýsi því ágætlega. Hann tekur ákvörðun og stendur algjörlega með henni. Honum er alveg sama hvað öðrum finnst, það er kostur fyrir aðalþjálfara að standa í lappirnar með ákvarðanir sínar. Hann er mjög hreinskilinn og það er líka mikill kostur," segir Freyr.

Smelltu hér til að hlusta á 45 mínútna spjall við Frey í Innkasti frá Belgíu
Athugasemdir
banner
banner