sun 18. nóvember 2018 21:50
Ívan Guðjón Baldursson
Þjóðadeildin: Sviss lenti tveimur undir - Rúllaði yfir Belgíu
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Sviss 5 - 2 Belgía
0-1 Thorgan Hazard ('2)
0-2 Thorgan Hazard ('17)
1-2 Ricardo Rodriguez ('26, víti)
2-2 Haris Seferovic ('31)
3-2 Haris Seferovic ('44)
4-2 Nico Elvedi ('62)
5-2 Haris Seferovic ('84)

Svisslendingar léku á alls oddi í úrslitaleiknum gegn Belgíu um toppsæti íslenska riðilsins í Þjóðadeildinni.

Belgar byrjuðu mjög vel og var Thorgan Hazard, yngri bróðir Eden, búinn að skora tvö mörk eftir rétt rúmlega stundarfjórðung af leiknum.

Svisslendingar þurftu því að skora fjögur mörk án þess að fá á sig til að geta hreppt toppsætið af Belgum á markatölu í innbyrðisviðureignum.

Heimamenn brugðust ótrúlega vel við og voru búnir að jafna leikinn stundarfjórðungi síðar. Ricardo Rodriguez skoraði úr vítaspyrnu áður en Haris Seferovic skoraði auðvelt mark eftir vel útfærða aukaspyrnu, þar sem Xherdan Shaqiri gaf stoðsendingu með laglegum skalla.

Sviss lék glimrandi skemmtilegan sóknarbolta sem Belgar réðu ekki við og fullkomnaði Seferovic endurkomu fyrri hálfleiksins með góðu marki rétt fyrir leikhlé.

Belgar voru einnig hættulegir fram á við en Yann Sommer átti góðan leik á milli stanganna og varði nokkrum sinnum meistaralega.

Varnarmaðurinn Nico Elvedi gerði fjórða mark Sviss eftir fyrirgjöf frá Shaqiri á 62. mínútu og svo fullkomnaði Seferovic þrennuna sína með frábærum skalla á lokakaflanum. Shaqiri átti einnig stóran þátt í síðasta marki Seferovic.

Sviss er þriðja þjóðin til að tryggja sig í úrslitakeppni A-deildarinnar. Portúgal og England eru þegar komin með farmiða á meðan Hollendingar þurfa stig á útivelli gegn Þýskalandi til að taka yfir Frakkland og vinna sinn riðil.

Þá var tveimur leikjum að ljúka í C-deildinni þar sem Eistar unnu sinn eina leik á tímabilinu, en þeir falla niður í D-deildina þrátt fyrir sigurinn.

Ungverjaland lagði þá Finnland að velli í leik upp á stoltið. FInnar voru þó búnir að vinna sinn riðil og fara upp í B-deildina, þar sem þeir gætu mætt íslenska landsliðinu í næstu Þjóðadeild.

Grikkland 0 - 1 Eistland
0-1 K. Lambropoulos ('44, sjálfsmark)

Ungverjaland 2 - 0 Finnland
1-0 A. Szalai ('29)
2-0 A. Nagy ('37)

Athugasemdir
banner
banner
banner