banner
   fim 18. nóvember 2021 21:31
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ásta Eir: Að fá bara eitt stig á móti þessu liði er slæmt
Ásta Eir í leiknum í kvöld.
Ásta Eir í leiknum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikmenn Kharkiv fagna seinna markinu.
Leikmenn Kharkiv fagna seinna markinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Virkilega pirrandi, maður er bara fúll og svekktur," sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, á fréttamannafundi eftir tap gegn úkraínska liðinu Kharkiv í kvöld.

„Ef maður horfir á frammistöðuna þá fannst mér við spila vel á köflum og fannst við eiga meira skilið úr þessum leik. Það svo sem skiptir ekki máli ef þú tapar leiknum - ekkert hægt að gera í því núna."

Lestu um leikinn: Breiðablik 0 -  2 Kharkiv

„Maður er ennþá frekar pirraður. Við hefðum fengið tækifæri sem við hefðum getað nýtt betur og þær fá tvær skyndisóknir og nýta þær. Það er það sem skilur á milli í dag."

Að fá bara eitt stig er slæmt
Hvað finnst þér eftir þessa tvo leiki gegn Kharkiv?

„Eft­ir síðasta leik vor­um við sátt­ar með stigið af því að við vorum ekki nógu góðar í þeim leik. En í kvöld er ég mjög svekkt að hafa ekki fengið neitt úr þess­um leik. Að fá bara eitt stig á móti þessu liði er slæmt, þetta var liðið sem við átt­um að geta náð sem mest gegn í þessum riðli.“

„Það er ekki hægt að dvelja lengi á þessu og verðum að taka það jákvæða úr þessum leik. Það var mjög góð bæting á milli þessara tveggja leikja. Þetta var besti leikurinn okkar í riðlakeppninni þegar kemur að því að halda bolta og slíkt. Við vorum að gera það sem við vorum að æfa síðustu vikuna og ég er ánægð með það og nálgunina í leikinn."

„En þó frammistaðan sé góð, þá gefur það okkur ekki neitt, við erum ennþá bara með eitt stig og ekkert mark."


Þurfa að brjóta ísinn
Ef og hefði og allt það, þið fáið færin í upphafi leiks til að komast yfir. Þetta hefði væntanlega verið allt annar leikur ef þið hefðuð nýtt eitthvað af þeim?

„Já, ég er sammála því. Ég sagði einmitt við Ása á leiðinni upp að þetta er svo mikið „moment of magic" í svona jöfnum leikjum. Ég horfði á þetta þannig að ef við myndum ná að skora fyrst þá hefðum við 100% tekið þennan leik."

„Við þurfum að brjóta ísinn að skora mark í þessari keppni. Það eru tveir erfiðir leikir framundan en það er samt alveg hægt að skora mark. Auðvitað fengum við færi í kvöld og við höfum fengið færi í öllum leikjunum sem við höfum spilað."

„Það vantar bara eitthvað örlítið upp á, mögulega sjálfstraust eða bara að þetta sé óheppni. Við erum alveg með þetta og þurfum bara að „executea"."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner