þri 18. desember 2018 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
Paul Ince: Lingard er fullkomið dæmi um allt sem amar að
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Paul Ince er ekki ánægður með gengi Manchester United á tímabilinu en hann vill meina að vandamálið liggi frekar hjá leikmönnum liðsins heldur en stjóranum umtalaða, Jose Mourinho.

Rauðu djöflarnir töpuðu 3-1 fyrir Liverpool á sunnudaginn og telur Ince, sem er einn af fáum til að hafa leikið fyrir bæði félög, að Man Utd hafi gert stór mistök þegar það bauð nokkrum af uppöldu leikmönnum sínum nýja langtímasamninga.

„Ég hef upplifað þetta ástand. Leikmenn byrja að mynda hópa innan félagsins í von um að láta reka stjórann, það er nákvæmlega það sem er að gerast á Old Trafford þessa stundina," sagði Ince í viðtali við Paddy Power.

„Félagið er að taka skref afturábak með að gera nýja langtímasamninga við menn á borð við Chris Smalling, Luke Shaw og Jesse Lingard. Það á að bjóða þeim tveggja eða þriggja ára samninga til að halda þeim hungruðum. Það má ekki dekra þá með löngum samningum þegar þeir eru ekki nógu góðir fyrir félagið til að byrja með.

„Eitt stærsta vandamál félagsins eru leikmennirnir. Það eru of margir leikmenn í liðinu sem eiga ekki skilið að klæðast United treyjunni."


Ince segist vilja sjá breytingar hjá félaginu hið snarasta og talar um Jesse Lingard sem holdgerving alls sem amar að innan félagsins.

„Ég er ekki að kalla eftir því að Jose Mourinho verði rekinn en eitthvað þarf að breytast sem fyrst. Stjórnin þarf að ákveða hvort hún ætlar að reka Mourinho eða gefa honum meiri pening til að byggja upp liðið. Hvað sem gerist þá verður ákvörðunin að vera tekin sem fyrst. Hversu langt ætlaru að leyfa félaginu að síga aftur úr?

„Lingard er fullkomið dæmi um allt sem er að hjá Manchester United. Hann er ekki nógu góður til að spila fyrir félagið.

„Ef þú skoðar samskiptamiðla hjá honum þá sérðu nýju fatalínuna hans, myndbönd af honum að dansa og ferðalög til Las Vegas og Miami. Í raunveruleikanum er hann búinn að skora tvö mörk allt tímabilið.

„Leikmaður í hans stöðu sem er bara búinn að gera tvö mörk, en er samt með sitt eigið fagn? Það eru margir hlutir sem þú getur gert samhliða knattspyrnuferlinum. Þú getur lært þjálfun, menntað þig eða lært nýtt tungumál. Þú þarft ekki að búa til þína eigin fatalínu eins og þú sért ein af skærustu stjörnum knattspyrnuheimsins. Hann virðist gleyma því hver hann er."


Ince var hvergi nærri hættur og hélt áfram að hakka hinn 26 ára gamla Lingard í sig.

„Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan hann komst ekki inn í byrjunarliðið hjá Derby fyrir þremur árum. Ég hata að segja þetta en hann hefði ekki komist upp með þetta á mínum tíma í knattspyrnuheiminum. Þessir leikmenn sem eru í United og vilja vinna titla ættu að horfa til fortíðarinnar og skoða hvernig alvöru hetjur félagsins höguðu sér. David De Gea og Marcus Rashford eru undantekningar.

„Ef þú ert á toppi deildarinnar, með þrjá úrvalsdeildartitla og Meistaradeildartitil á bakinu, þá máttu alveg byrja með þína eigin fatalínu."

Athugasemdir
banner
banner
banner