
Brasilíska goðsögnin Pele sendi Lionel Messi og félögum hans í argentínska landsliðinu hamingjuóskir fyrir að hafa unnið HM í Katar.
Pele, sem er talinn einn besti leikmaður allra tíma, vann HM þrisvar sinnum með brasilíska landsliðinu frá 1958 til 1970.
Á síðustu mánuðum hefur hann glímt við alvarleg veikindi og var vart hugað líf en hann er allur að koma til samkvæmt fréttamiðlum í Brasilíu.
Hann sendi Messi og hans mönnum hamingjuóskir með sigurinn gegn Frökkum. Pele segir að Maradona sé nú brosandi á himni en hann lést fyrir tveimur árum. Þá hrósaði hann Kylian Mbappe og Marokkó einnig.
„Í dag heldur fótboltinn áfram að segja sögu sína, eins og alltaf, og á hrífandi hátt. Messi að vinna heimsmeistaramótið í fyrsta sinn eins og ferill hans verðskuldaði. Elsku vinur minn, Mbappe, hefur skorað fjögur mörk í úrslitaleiknum og þvílík gjöf sem það er að horfa á þessa sýningu hjá framtíð íþróttarinnar. Ég má svo ekki gleyma Marokkó fyrir ótrúlegt mót. Það er frábært að sjá Afríku skína.“
„Innilegar hamingjuóskir, Argentína! Diego brosir nú, það er alveg klárt,“ sagði Pele á samfélagsmiðlum.
Athugasemdir