Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 19. janúar 2019 12:45
Hafliði Breiðfjörð
Fótbolta.net mótið: Bjarki Steinn með tvö í sigri á FH
Bjarki Steinn skoraði tvö og lagði upp eitt fyrir ÍA í dag.
Bjarki Steinn skoraði tvö og lagði upp eitt fyrir ÍA í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björn Daníel spilaði sinn fyrsta leik fyrir FH.
Björn Daníel spilaði sinn fyrsta leik fyrir FH.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
ÍA 4 - 2 FH
0-1 Þórir Jóhann Helgason ('19)
0-2 Jónatan Ingi Jónsson ('26)
1-2 Bjarki Steinn Bjarkason ('30)
2-2 Bjarki Steinn Bjarkason ('47)
3-2 Arnar Már Guðjónsson ('49, víti)
4-2 Einar Logi Einarsson ('54)

Bjarki Steinn Bjarkason átti stórleik þegar ÍA vann góðan 4-2 sigur á FH í Fótbolta.net mótinu í dag. Hann skoraði tvö mörk og lagði upp eitt. Bjarki Steinn er sonur Bjarka Sigurðssonar fyrrverandi landsliðsmanns í handbolta.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna af vef KSÍ

Þórir Jóhann Helgason kom FH yfir um miðjan fyrri hálfleikinn. Atli Guðnason átti þá góða sendingu inn í teiginn sem Þórir afgreiddi laglega í netið.

Jónatan Ingi Jónsson bætti svo öðru markinu eftir mjög gott einspil þar sem hann lék á nokkra skagamenn og setti boltann í netið í teignum.

Þegar hálftími var liðinn af leiknum minnkuðu skagamenn muninn. Steinar Þorsteinsson vann þá boltann af miklu harðfylgi í baráttu við Hjört Loga Valgarðsson, sendi þvert fyrir markið á Bjarka Stein sem var á auðum sjó og skoraði af stuttu færi.

Björn Daníel Sverrisson og Jakub Thomsen komu inná í hálfleik og spiluðu þar með sinn fyrsta leik síðan þeir gengu til liðs við FH að nýju.

Seinni hálfleikur byrjaði með látum því Bjarki Steinn Bjarkason skoraði glæsilegt mark með föstu skoti í slá og inn.

Skagamenn fengu svo vítaspyrnu tveimur mínútum síðar, Arnar Már Guðjónsson fór á punktinn og sendi Vigni Jóhannesson í rangt horn, öruggt mark.

Einar Logi Einarsson skoraði svo fjórða mark ÍA með góðum skalla eftir aukaspyrnu Bjarka Steins og staðan allt í einu 4-2, skagamenn komnir með þrjú mörk á fyrstu níu mínútum síðari hálfleiks.

Lítið markvisst gerðist eftir þetta og leikurinn hægðist nokkuð. Árni Snær Ólafsson átti snilldar markvörslu þegar um fimm mínútur voru eftir en skalli Davíðs Þórs eftir hornspyrnu var á leið í markið þegar Árni náði að verja.

Lokastaðan því 4-2 fyrir Skagamenn sem eru á toppi riðilsins með sigur í báðum leikjum sínum en þeir unnu Keflavík 4-0 í fyrsta leik. FH er með eitt stig eftir markalaust jafntefli við Stjörnuna í fyrsta leik.
Athugasemdir
banner
banner
banner