Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 19. mars 2021 15:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Brynjar Björn: Held að við séum með sterkari hóp í dag
Viktor Bjarki Arnarsson, aðstoðarþjálfari HK, og Brynjar Björn, aðalþjálfari liðsins.
Viktor Bjarki Arnarsson, aðstoðarþjálfari HK, og Brynjar Björn, aðalþjálfari liðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ívan Óli kom í HK frá ÍR. Hann er efnilegur leikmaður.
Ívan Óli kom í HK frá ÍR. Hann er efnilegur leikmaður.
Mynd: HK
Það er mikill missir af þessum manni en Brynjar telur leikmannahóp HK sterkari núna en hann var á síðasta tímabili.
Það er mikill missir af þessum manni en Brynjar telur leikmannahóp HK sterkari núna en hann var á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK hefur endað í níunda sæti síðustu tvær leiktíðir.
HK hefur endað í níunda sæti síðustu tvær leiktíðir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, er vel stemmdur fyrir tímabilinu. Brynjar er að fara inn í sitt fjórða tímabil með HK og það þriðja í Pepsi Max-deildinni.

Fréttamaður Fótbolta.net tók á honum stöðuna fyrir tímabilinu, en það er um mánuður í að Pepsi Max-deildin fari að rúlla.

„Veturinn hefur bara gengið vel. Við höfum æft vel og síðan var frábært að fá leikina þegar Fótbolta.net mótið byrjaði og Lengjubikarinn upp úr því. Við höfum æft vel frá því við fengum að byrja aftur um miðjan desember. Við æfðum aðeins á milli jóla og nýárs og síðan tók við hefðbundinn undirbúningur á nýju ári. Það hefur verið frekar lítið um meiðsli og allir verið með meira og minna sem er mikilvægt á þessum árstíma," segir Brynjar en aðspurður hvort liðið hafi verið að æfa meira á þessu undirbúningstímabili en þeim síðustu, þá sagði hann.

„Við vorum með eina og eina hádegisæfingu fyrir þá sem gátu gert það. Þetta er kannski ein, tvær æfingar plús í viku ofan á það sem er venjulega hjá okkur. Við höfum æft aðeins meira en við höfum gert venjulega."

Meiðsli?
HK-ingar hafa verið heppnir á undirbúningstímabilinu og er ekkert stórvægilegt að hrjá leikmannahópinn. Það hefur gefið Brynjari tækifæri á að dreifa álaginu á hópnum á undirbúningstímabilinu og gefa tækifæri.

„Það hefur verið eitthvað um meiðsli en ekkert stórvægilegt. Það er er ekkert langtíma sem menn eru að bera með sér inn í mótið. Ef ekkert breytist þá verða menn klárir í fyrsta leik," segir Brynjar og bætir við:

„Það er mjög gott. Í leikjum viltu dreifa álaginu og leyfa öllum að fá sín tækifæri. Ef allir eru heilir þá verður maður að gera það. Það býr til samkeppni í hópnum og menn leggja sig fram, á sama tíma og þeir eru góðir liðsfélagar."

Fleiri breytingar?
HK hefur fengið Ívan Óla Santos frá ÍR og Örvar Eggertsson frá Fjölni, tvo sóknarþenkjandi leikmenn. Þá kom varnarmaðurinn Martin Rauschenberg aftur frá Stjörnunni á láni. Þjálfari HK-inga er ánægður með hópinn og býst ekki við fleiri breytingum.

„Ég held það verði bara engar breytingar. Við mögulega lánum einn leikmann en ekkert sem ég get sagt til um í dag. Ég á ekki von á því að það komi neinn til okkar, nema það komi eitthvað sérstakt upp; ef við lendum í einhverjum áföllum og teljum okkur þurfa að bæta í hópinn. Ef allir eru heilir erum við með nokkuð jafnan og þéttan hóp."

„Ég er mjög ánægður með hópinn eins og hann er núna. Það hefur sýnt sig í síðustu tveimur leikjum að við erum með frekar jafnan hóp og samkeppnin er þokkaleg. Það er eitthvað sem við höfum ekki haft mikið af síðustu tvö árin í efstu deild."

„Svo eru leikmenn sem komu seint eða um mitt mót í fyrra eins og Stefán Alexander (Ljubicic), Ívar Örn (Jónsson), Bjarni Páll Linnet (Runólfsson) og Martin (Rauschenberg). Við erum með fjóra, fimm leikmenn sem komu seint eða í miðju móti. Þeir eru komnir inn í það sem við erum að gera og búnir að fá meiri tíma til að æfa og koma sér í gang."

Ívan Óli er ungur leikmaður sem kom úr ÍR. Hann verður 18 ára á morgun og Brynjar er ánægður með hann.

„Ég vona að hann muni spila einhverja rullu fyrir okkur í sumar. Hann er ungur og efnilegur, kemur frá ÍR þar sem hann er búinn að spila í 2. deild. Það er klárt að það er stökk upp í efstu deild. Ég er mjög ánægður með hann og hann er toppdrengur. Hann þarf smá tíma til að koma sér inn í hlutina í liði í efstu deild."

Valgeir farinn
Valgeir Valgeirsson hefur verið besti leikmaður HK síðustu ár. Þessi 18 ára gamli leikmaður fór á láni til Brentford á síðasta ári og Brynjar sagði nýverið að hann reiknaði ekki með honum í Pepsi Max-deildinni í sumar. Hann telur að þrátt fyrir að Valgeir sé farinn, þá sé leikmannahópurinn sterkari en á síðasta tímabili. Leikmenn sem komu til félagsins seint í fyrra eru búnir að fá undirbúningstímabil og Brynjar telur að það muni um það.

„Það verður ekkert fyllt þannig séð. Ég held að við séum - eins frábær og Valgeir er - með sterkari hóp í dag en í fyrra. Valgeir var náttúrulega frábær í fyrra og fer. Hans staða eða hann sem leikmaður, það kemur aldrei neinn í staðinn fyrir hann. Hann er uppalinn HK-ingur og það er ákveðin rómantík sem fylgir því," sagði Brynjar.

„Við erum með leikmenn; Örvar er spennandi leikmaður sem kemur til okkar. Hann er enn ungur og efnilegur þó hann sé búinn að spila í deildinni í nokkur tímabil. Menn þurfa að stíga upp."

Valgeir kom upp úr unglingastarfi HK. Eru fleiri leikmenn á leiðinni þaðan og upp í aðalliðið?

„Það eru nokkrir ungir leikmenn sem eru að æfa með okkur. Þeir hafa ekki spilað mikið. Það er ekkert alveg í bráð. Við verðum að bíða og sjá inn í sumarið. Við sjáum hvar þessir leikmenn standa um mitt sumar, hvort það sé tími til þess að gefa þeim tækifæri."

Stærsta markmiðið á þessu ári
HK hefur síðastliðin tvö tímabil - frá því liðið kom upp úr Lengjudeildinni - gert mjög vel. Liðið endaði í níunda sæti, sjö stigum frá fallsæti 2019 og einnig í níunda sæti í fyrra, en 12 stigum frá fallsvæðinu. Á þriðja tímabili er markmiðið fyrir HK-inga að koma sér fyrir sem stöðugt lið í deildinni.

„Við erum enn á þeim stað að tryggja sætið í deildinni, að koma okkur fyrir sem stöðugt lið í efstu deild. Það er stærsta markmiðið á þessu ári. Við teljum okkur geta það og vera á góðri leið með það," segir Brynjar en Pepsi Max-deildin hefst 22. apríl og á HK heimaleik gegn KA í fyrstu umferð.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner