Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fös 19. apríl 2019 12:15
Arnar Daði Arnarsson
Hin hliðin - Ívar Örn Jónsson (Valur)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Valur er spáð fyrsta sæti í Pepsi Max-deildinni í sumar. Samhliða spánni er einn leikmaður í hverju liði sem sýnir á sér hina hliðina.

Hjá Val er það Ívar Örn Jónsson sem sýnir á sér hina hliðina.

Þú getur keypt Ívar Örn í Draumaliðið þitt. Smelltu hér til að taka þátt í Draumaliðsdeild Eyjabita og Fótbolta.net!

Fullt nafn: Ívar Örn Jónsson

Gælunafn: Íbbi, Eve

Aldur: 25 ára

Hjúskaparstaða: Ég er á lausu

Hvenær lékstu þinn fyrsta leik með meistaraflokki: Veturinn 2010 með HK. Æfingaleikur á móti FH þar sem ég spilaði uppi á topp og skoraði með öxlinni, hef ekki fengið eina einustu mínútu sem framherji síðan.

Uppáhalds drykkur: Nocco Caribbean

Uppáhalds matsölustaður: Ginger

Hvernig bíl áttu: Skoda Octavia station

Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Fer almennt mjög stefnulaust í gegnum Netflix. Sex Education heillaði þar nýlega og get alltaf gripið í Friends þó ég hafi gert minna af því síðustu ár.

Uppáhalds tónlistarmaður: Anderson Paak

Uppáhalds samskiptamiðill: Instagram

Fyndnasti Íslendingurinn: Wilhemlm Neto

Hvað viltu í bragðarefinn þinn: Lúxusdýfu, karmelluhúðað vöffluform, þrist, daim kúlur ofan á.

Hvernig hljómar síðasta sms sem þú fékkst: T-mobile að bjóða mig velkominn til Íslands. Rosalega boring.

Hvaða liði myndir þú aldrei spila með: FC Santa Coloma er neðarlega á lista.

Besti leikmaður sem þú hefur mætt: Ég og Jón Daði áttum í ótrúlegri stöðubaráttu á miðjunni í 0-0 jafntefli á kópavogsvelli árið 2011. Hann er búinn að gera vel síðan.

Besti þjálfarinn sem hefur þjálfað þig: Hef verið mjög heppinn með þjálfara hingað til á ferlinum og get ómögulega valið úr þeim. Arnar Halls hjálpaði mér mikið á elsta árinu mínu í öðrum flokki, fær mikið af stigum í minni bók fyrir það.

Mest óþolandi leikmaður sem þú hefur mætt: Doddi Birgis því hann er stór og hann kann hnoð.

Sætasti sigurinn: Íslandsmeistaratitillinn 2018 og þegar Pape skaut Víkingi í Pepsi deildina.

Mestu vonbrigðin: Þrír silfurpeningar á íslandsmóti í yngri flokkunum, svo situr í mér að hafa ekki farið áfram í Evrópudeildinni með Víkingi á sínum tíma, vorum grátlega nálægt því.

Uppáhalds lið í enska: Liverpool

Ef þú fengir að velja einn leikmann úr öðru íslensku liði í þitt lið: Alex Freyr Hilmarsson

Fyrsta verk ef þú yrðir formaður KSÍ: Reyna að fá auglýsingar frá veðmálasíðum í gegn fyrir deildina hérna heima, gæti verið flott tekjulind fyrir liðin.

Efnilegasti knattspyrnumaður/kona landsins: Róbert Orri Þorkelsson er örfættur og flottur.

Fallegasti knattspyrnumaðurinn á Íslandi: Tobias Thomsen, manden er helt fantastisk

Fallegasta knattspyrnukonan á Íslandi: Þegar stórt er spurt!

Besti knattspyrnumaðurinn frá upphafi: Lionel Messi

Hver er mesti höstlerinn í liðinu: Fiskurinn syndir burt með þennan titil frekar sannfærandi.

Uppáhalds staður á Íslandi: Fagrilundur.

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem gerst hefur í leik: Sumarið 2015 vorum við í Víking 7-1 yfir gegn Keflavík undir lok leiks í Víkinni þegar það liggur leikmaður eftir á vellinum, Viktor Bjarki ætlar að koma boltanum út af en á sama augnabliki ætlar Halldór Smári að þrýsta honum upp vinstri hliðarlínuna. Viktor endar á að pota boltanum útfyrir en er svo jarðaður af Halla samherja sínum og félaga. Sjón er sögu ríkari en ég held að leikurinn sé á túbunni og gott ef atvikið rataði ekki á twitterinn hérna um árið, mæli með að fletta þessu upp.

Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa: Horfi á eitthvað sem ég hef örugglega séð áður á Netflix.

Fyrir utan knattspyrnu, fylgist þú með öðrum íþróttum: Ég fylgist mjög mikið með bæði NBA og NFL deildunum.

Í hvernig fótboltaskóm spilar þú: Eldri týpu af Nike Mercurial Vapor.

Í hverju varstu/ertu lélegastur í skóla: Klippa og líma í 1.bekk

Uppáhalds Eurovision lag frá upphafi: Draumur um Nínu

Vandræðalegasta augnablik: Á einn skrautlegan viðtalsfeil, svo er líka vert að minnast á þegar við Víkingar vorum að rétta úr kútnum eftir erfitt gengi sumarið 2015 og erum 2-0 yfir gegn Fjölni í Víkinni á 90. mínútu. Dómarinn flautar og í kjölfarið læt ég frá mér mikið fagnaðaröskur enda mjög kátur með sigurinn, dómarinn var svo bara að dæma rangstöðu.

Hvaða þrjá leikmenn tækir þú með þér á eyðieyju: Viktor Jóns til þess að lyfta þungu hlutunum og halda mönnum léttum, Anton Ara til að minna mig á að hlaða símann minn, bjóða upp á góða hæð og almennt föðurlega skynsemi síðast en ekki síst Odd Hólm leikmann Ýmis til þess að togna aftan í læri ef þess skyldi þurfa.

Sturluð staðreynd um sjálfan þig: Það fer eftir verkefninu hvaða hönd ég nota. T.d. skrifa með vinstri, kasta handbolta með hægri en skýt körfubolta með vinstri svo eitthvað sé nefnt.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner