fös 19. apríl 2019 21:25
Ívan Guðjón Baldursson
Hollenska úrvalsdeildin færir heila umferð fyrir Ajax
De Ligt er 19 ára fyrirliði Ajax. Hann fer til Bayern eða Barcelona í sumar.
De Ligt er 19 ára fyrirliði Ajax. Hann fer til Bayern eða Barcelona í sumar.
Mynd: Getty Images
Hollenska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að færa heila umferð í deildinni svo Ajax fái aukna hvíld fyrir undanúrslitarimmu Meistaradeildarinnar.

Ajax mætir Tottenham í óvæntri undanúrslitarimmu. Fyrri leikurinn fer fram 30. apríl, í London, en samkvæmt leikjaplani hollensku deildarinnar átti Ajax að spila við De Graafschap 28. apríl.

Knattspyrnusambandið ákvað því að fresta viðureign Ajax um tvær vikur en þurfti að fresta öllum öðrum leikjum því þeir þurfa að fara af stað samtímis. Ajax er jafnt PSV Eindhoven á stigum á toppi deildarinnar.

Útskýring knattspyrnusambandsins er á þann veg að þetta sé ekki gert til að veita Ajax aukna hvíld framyfir ensku félögin, heldur til að vernda leikmenn liðsins. Það sé ekkert grín að spila leik í Hollandi á sunnudegi og annan í London á þriðjudegi.

Ungt lið Ajax er að eiga ótrúlegt tímabil bæði í deild og Meistaradeild. Liðið er með 74 stig eftir 30 umferðir og búið að slá Real Madrid og Juventus úr leik á leið sinni í gegnum útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

Lið Ajax er sérstakt af nokkrum ástæðum en ein þeirra er sú að mikilvægir leikmenn munu yfirgefa félagið í sumar. Frenkie de Jong hefur þegar gefið út að hann fari til Barcelona á meðan Mathijs de Ligt fer annað hvort til Bayern eða Barca. Þá eru fleiri leikmenn félagsins orðaðir við brottför, svo sem David Neres og Hakim Ziyech.

Stjórnendur annarra félaga í hollensku deildinni eru fæstir sáttir með þessa ákvörðun sambandsins en munu ekki reyna að breyta henni.

Tottenham á leik gegn West Ham laugardaginn 27. apríl, þremur dögum fyrir undanúrslitin. Svo er leikur gegn Bournemouth á dagskrá 6. maí, tveimur dögum fyrir seinni leikinn í Amsterdam. Líklegt er að enska úrvalsdeildin færi viðureignina.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner