fös 19. apríl 2019 17:00
Ívan Guðjón Baldursson
Inter og Man City eru að semja um Danilo
Danilo myndi berjast við nafna sinn Danilo D'Ambrosio um byrjunarliðssæti.
Danilo myndi berjast við nafna sinn Danilo D'Ambrosio um byrjunarliðssæti.
Mynd: Getty Images
Nýjustu fregnir frá Ítalíu eru þær að Inter og Manchester City eru í viðræðum um félagsskipti Danilo.

Danilo er 27 ára hægri bakvörður sem Pep Guardiola keypti til Man City sumarið 2017. Brasilíski landsliðsmaðurinn, sem á 23 A-landsleiki að baki, kostaði tæplega 30 milljónir punda en hefur aðeins leikið 32 deildarleiki fyrir félagið og er oft spilað úr stöðu.

Í heildina á hann 56 keppnisleiki að baki fyrir City en félagið spilar fleiri leiki á hverju tímabili en flest önnur evrópsk félög.

Danilo gerði góða hluti með Atletico Mineiro og Santos í brasilíska boltanum áður en hann var fenginn til Porto. Þar hélt hann áfram að hrífa og var keyptur til Real Madrid. Hjá Real náði hann ekki að festa sig í sessi í byrjunarliðinu og fékk svipaðan spiltíma og hann fær nú.

Inter er í þriðja sæti ítölsku deildarinnar og er svo gott sem búið að tryggja sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Félagið hefur verið í vandræðum með bakvarðarstöðuna hægra megin á tímabilinu en Joao Cancelo, sem er nú leikmaður Juventus, gerði frábæra hluti þar á síðasta tímabili.

Inter er með þokkalegan leikmannahóp en komst ekki upp úr erfiðum Meistaradeildarriðli þrátt fyrir sigra gegn Tottenham og PSV Eindhoven og jafntefli á heimavelli gegn Barcelona. Líklegt er að nokkrir af þekktari leikmönnum félagsins verið seldir í sumar, Mauro Icardi og Ivan Perisic eru sérstaklega orðaðir við brottför.
Athugasemdir
banner
banner