sun 19. apríl 2020 15:00
Ívan Guðjón Baldursson
Fabian O'Neill: Niðurlægði Gattuso - Buffon alltaf reykjandi
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Fabian O'Neill er eitt mesta efni knattspyrnuheimsins sem ekkert rættist úr. Zinedine Zidane hefur oftar en einu sinni talað um O'Neill sem hæfileikaríkasta samherja sinn.

O'Neill var miðjumaður frá Úrúgvæ og var keyptur til Cagliari 22 ára gamall. Hann gerði frábæra hluti hjá Cagliari og endaði á að vera keyptur í stjörnum prýtt lið Juventus fyrir 12 milljónir dollara um aldamótin.

Þar æfði hann með mönnum á borð við Alessandro Del Piero, Antonio Conte og Edgar Davids með Carlo Ancelotti í þjálfarastólnum.

„Ég er stoltur af því að hafa verið liðsfélagi Zidane hjá Juventus og yfir því sem hann hefur sagt um mig. Ég er nokkuð viss um að ég sé ekki besti leikmaðurinn sem hann hefur spilað með," sagði O'Neill í viðtali við The Blizzard og rifjaði svo upp fyrstu kynni sín af Gennaro Gattuso.

„Ég man þegar ég var enn í Cagliari talaði ég við Paolo Montero (úrúgvæskan varnarmann Juve) fyrir leik gegn Salernitana. Hann sagði mér frá ungum miðjumanni í liðinu sem ég ætti að passa mig á, hann væri grjótharður. Ég sagðist ætla að niðurlægja þennan miðjumann með því að klobba hann þrisvar, ég sagðist ætla að hætta í fótbolta ef mér tækist það ekki.

„Ég var búinn að klobba hann þrisvar á fyrsta hálftímanum og hann kom upp að mér og hótaði að drepa mig ef ég hætti ekki að leika mér svona að honum. Ég svaraði: 'Hlustaðu á mig, það er verið að niðurlægja þig fyrir framan alla þessa stuðningsmenn, þannig kannski er gáfulegra að hætta bara að dekka mig, finnst þér ekki?'"


O'Neill leit á knattspyrnu sem skemmtun frekar en alvöru vinnu. Hann lagði ekki metnað í það sem hann gerði þar sem hann hafði enga löngun til að verða besti knattspyrnumaður heims.

„Ég spilaði með leikmönnum í heimsklassa á borð við Zidane, Del Piero, Davids og Pavel Nedved. Þeir lögðu mikið á sig því þeir vildu verða bestu leikmenn í heimi. Ég lagði aldrei mikið á mig því mér var alveg sama um að vera bestur.

„Ég naut mín hjá Juventus, leikmönnum líkaði vel við mig. Ég var góð manneskja og fyndinn, ég var kannski smá grínistinn í hópnum, alltaf í góðu skapi og aldrei nein leiðindi. Ég var samt ekki mikið meira en það. Ég var ekki neitt í þessu Juventus liði, það sem Zidane segir um mig er litað af vináttu okkar."


O'Neill fór um víðan völl í viðtalinu og ræddi meðal annars áfengisvanda sem hann þróaði með sér. Þar minntist hann ungs Gianluigi Buffon sem átti það til að reykja sígarettur fyrir og eftir fótboltaleiki.

„Ég drakk tvö vínglös á dag en það hafði ekki mikil áhrif á mig. Fólk hélt að ég hafi hætt í fótbolta útaf áfengisvanda en það voru í raun meiðsli sem létu mig hætta. Ég man þegar Del Piero og Buffon spurðu mig fyrir leiki hvort ég hafi verið að drekka. Ég svaraði alltaf eins: 'Já, ég er búinn að því. Hvað viltu að ég drekki ef ekki vín? Mjólk, eins og þú?'.

„Vínið var ekki vandamálið mitt, ekki frekar en sígaretturnar voru vandamálið hans Buffon. Hann var alltaf reykjandi en er samt besti markvörður heims enn í dag.

„Ég var með hátt kólesteról og vöruðu læknar mig við því að drekka, en ég hætti aldrei. Ég sé ekki eftir neinu, ég lít ekki á fortíðina með eftirsjá. Hvað ef ég hefði ekki drukkið? Hvað ef ég hefði lagt meira á mig? Þetta eru spurningar sem eru ekki til nein svör við."

Athugasemdir
banner
banner
banner