Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 19. apríl 2020 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Kallström um dvöl sína hjá Arsenal: Gekk inn, vann bikar, gekk út
Mynd: Getty Images
Kallström spilaði 131 landsleik fyrir Svíþjóð.
Kallström spilaði 131 landsleik fyrir Svíþjóð.
Mynd: Getty Images
Það kom einhverjum á óvart þegar Arsenal krækti í sænska landsliðsmanninn Kim Källström á lánssamningi í janúar 2014.

Kallström var 31 árs á þeim tíma en hann kom meiddur til félagsins og setti það strik í reikninginn. Miðjumaðurinn náði á endanum aðeins að spila fjóra leiki á fjórum mánuðum hjá félaginu, en vann þó FA bikarinn sem var fyrsti titill Arsenal í níu ár.

„Ég meiddist á baki í æfingaferð með Spartak Moskvu og við létum Arsenal vita. Við sögðumst ekki vita hversu alvarleg meiðslin væru en það var lítið eftir af glugganum svo mér var sagt að koma samt í læknisskoðun," skrifaði Kallström í pistli á vefsíðu Arsenal.

„Eftir skoðunina kom í ljós að þetta var nokkuð stórt vandamál en það voru bara nokkrar mínútur eftir af glugganum. Ég bjóst ekki við að skiptin færu í gegn en Arsenal og Spartak komust að samkomulagi og ég varð eftir. Félagið þurfti annað hvort að sætta sig við mig með bakmeiðsli eða ekkert. Það er þess vegna sem Arsenal tók séns á mér - og það borgaði sig!"

Einn af fjórum leikjum Kallström fyrir Arsenal kom í undanúrslitum FA bikarsins. Þar skoraði hann í vítaspyrnukeppni gegn Wigan er Arsenal komst í úrslitaleikinn, þar sem Hull City var lagt af velli.

„Ég hafði ekki hugmynd um hversu mikilvægt það var fyrir Arsenal að vinna þennan bikar. Í mínum augum var Arsenal sigursælt félag sem var vaðandi í titlum því þegar ég hugsaði um Arsenal þá hugsaði ég bara um Freddie Ljungberg og liðið sem fór ósigrað í gegnum heilt úrvalsdeildartímabil.

„Ég fattaði ekki hversu langur tími hafði liðið frá síðasta titli og var pollrólegur á vítapunktinum, ég fann fyrir mjög lítilli pressu. Ég var einfaldlega á réttum stað á réttum tíma. Ég mun aldrei gleyma því þegar ég labbaði að boltanum frá miðjulínunni.

„Fólk spyr mig alltaf hvers vegna ég hafi verið brosandi á leiðinni að boltanum. Þið verðið að skilja að ég átti aldrei að taka þessa vítaspyrnu. En ég gerði það, skoraði og við unnum. Þessi vítaspyrna bjargaði dvöl minni hjá félaginu.

„Það eru margir leikmenn sem hafa gert mikið meira heldur en ég fyrir Arsenal, en á sama tíma eru líka margir leikmenn sem hafa gert mikið minna en ég fyrir félagið yfir miklu lengri tíma.

„Ég gekk inn, skoraði úr vítaspyrnu, við unnum bikar og svo gekk ég aftur út. Hver hefði ímyndað sér það frá bakbrotna manninum?"

Athugasemdir
banner
banner
banner