Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   sun 19. apríl 2020 21:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Totti: Var reiður því ég hefði sagað af mér fótinn fyrir Roma
Francesco Totti hætti hjá Roma í fyrra eftir 30 ár hjá félaginu.
Francesco Totti hætti hjá Roma í fyrra eftir 30 ár hjá félaginu.
Mynd: Getty Images
Francesco Totti ætlar ekki að stíga fæti inn á æfingasvæði Roma á meðan Bandaríkjamaðurinn James Pallotta er enn eigandi félagsins.

Totti er goðsögn hjá Roma. Hann spilaði allan sinn feril fyrir félagið, en lagði skóna á hilluna í maí 2017. Hann tók eftir það til starfa sem tæknilegur ráðgjafi hjá félaginu, en hætti því í fyrra. Hann yfirgaf Roma því hann taldi sig ekki hafa neitt vald og gagnrýni hann stjórn félagsins.

Roma sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið eftir að Totti hætti. Í yfirlýsingunni sagði meðal annars: „Við teljum að hans upplifun af staðreyndum og ákvörðunum sem teknar voru á tíma hans hjá félaginu sé víðs fjarri raunveruleikanum."

Totti talaði við félaga sinn Luca Toni í gegnum Instagram Live og greindi þar frá því að hann geti ekki einu sinni horft á son sinn spila með U15 liði félagsins.

„Eins og staðan er núna þá mun ég ekki stíga fæti inn á Trigoria (æfingasvæði Roma)," sagði Totti. „Þegar ég fer með Christian á æfingar þá fer ég aldrei inn fyrir hliðið. Stundum sit ég í bíl mínum og langar að gráta yfir því að staðan skuli vera svona eftir að ég var í 30 ár hjá félaginu."

„Ég fór og það er þannig. Ég á enn góða vini sem koma fyrir utan hliðið og heilsa upp á mig. Sonur minn biður mig stundum að koma inn fyrir að horfa á sig, en ég get það ekki."

Totti, sem er í dag 43 ára, segist ekki hafa viljað hætta árið 2017. „Ég var í góðu standi líkamlega; af hverju ætti ég að hætta? Ég vildi ekki eyðileggja tíma minn og það var því betra að hætta en að fara og spila á öðrum stað í eitt ár."

„Allt tekur enda, ég er ekki heimskur. Vandamálið er það að sumt fólk sagði við mig að ákvörðunin yrði mín, en svo var mér ýtt til hliðar. Ég var reiður því ég hefði sagað af mér fótinn fyrir Roma."
Athugasemdir
banner
banner