Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 19. maí 2020 14:13
Elvar Geir Magnússon
Gústi ánægður með fjölgun skiptinga: Hentar okkur mjög vel
Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu.
Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Í gær tilkynnti KSÍ að fimm skiptingar yrðu leyfðar á lið í leikjum efstu deildar þetta sumarið.

FIFA hefur gefið grænt ljós á þessa tímabundnu reglugerðabreytingu en hún er til að álag á leikmenn verði ekki of mikið þegar þéttar verður spilað en áður, vegna kórónaveirufaraldursins.

Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu, segist ánægður með þessa breytingu. Hann segist vera með stóran og jafnan hóp og þessi breyting henti sínu liði vel.

„Ég er mjög ánægður. Þetta hentar okkur mjög vel. Það eru margir strákar sem vilja finna smjörþefinn af Pepsi Max-deildinni og þetta gefur okkur færi á að leyfa fleirum að spila," segir Ágúst í hlaðvarpsþættinum Niðurtalningin.

„Það verður mikið álag á liðunum og margir leikir í júlí og ágúst. Þá er gott að vera með stóran hóp og geta gert nógu margar skiptingar."

Það virðist almenn sátt meðal íslenskra félaga að taka upp fleiri skiptingar þetta tímabilið.

„Þú færð líka bara þrjá glugga til að framkvæma skiptingarnar. Þetta tekur því ekki allt tempóið úr leiknum. Það held ég að sé bara mjög jákvætt," segir Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar og annar umsjónarmanna Niðurtalningarinnar.

Í þættinum var talað um að þetta myndi þá væntanlega auka spiltíma margra ungra leikmanna í deildinni.

Hlustaðu á niðurtalninguna í spilaranum hér að neðan eða í gegnum Podcast forrit.
Niðurtalningin - Gústi og Gróttusumarið
Athugasemdir
banner
banner
banner