Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   þri 19. maí 2020 17:00
Fótbolti.net
Gústi Gylfa: Menn hafa talað um að ég sé ekki taktískur
Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu.
Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu, segir að nýliðarnir af Seltjarnarnesi séu með mörg vopn í sínu vopnabúri fyrir baráttuna í Pepsi Max-deildinni í sumar.

Hann segir að föst leikatriði og öflug liðsheild séu helstu styrkleikarnir í sínu liði.

„Styrkleiki Gróttu í fyrra var föst leikatriði og það breytist ekkert. Það er enn styrkleiki Gróttu. Það er sami leikmannahópur og í fyrra. Við erum líka með góða leikmenn tæknilega og það er hraði í liðinu. Það er ýmislegt þarna sem hægt er að gera, ég held að liðsheildin og metnaðurinn verði styrkleiki hjá okkur," segir Ágúst í hlaðvarpsþættinum Niðurtalningin.

Ýmsir sparkspekingar hafa talað um að 'taktík' sé ekki helsti styrkur Ágúst sem þjálfara. Hann sjálfur telur að sú umræða sé röng.

„Maður hefur heyrt að maður sé ekki taktískur og ýmislegt. Maður hefur verið í þessum bransa í níu ár sem aðalþjálfari og átti langan feril sem leikmaður. Maður veit ýmislegt sem maður er ekki að blaðra um í fjölmiðlum. Maður kemur bara hreint og beint fram og er ekkert að flækja hlutina," segir Ágúst.

„Við erum með plan A og B, og mögulega plan C líka. Leikmennirnir mínir eru tilbúnir í þessa taktík sem við leggjum upp með. Allir eru með á hreinu hvað við ætlum að gera. Það er mikilvægt að geta aðlagast leikstíl mótherjans og ég held að það sé vanmetið í íslenskum fótbolta. Ef eitthvað breytist þá þarftu að geta tæklað það. Við erum með fullt af vopnum í okkar vopnabúri."

„Á þjálfaraferli mínum hef ég bæði verið með þriggja og fjögurra manna vörn sem A og B. Þetta eru ágætis andstæður í leikkerfi. Hjá Breiðabliki spiluðum við um 20 leiki í 3-4-3 kerfi og 30-40 leiki í 4-2-3-1. Við höfum líka spilað 4-4-2. Við förum með þetta inn í Gróttuliðið og menn eru tilbúnir að prófa þetta," segir Ágúst en viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan.
Niðurtalningin - Gústi og Gróttusumarið
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner