mið 19. júní 2019 12:00
Arnar Daði Arnarsson
Fimm fengu rautt hjá Keflavík/Víði í 2. flokks leik
Keflavík/Víðir sektað um 22.500 kr.
Það var nóg að gera hjá dómara leiksins.
Það var nóg að gera hjá dómara leiksins.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Fjórir leikmenn og starfsmaður B-liðs sameinaðs liðs Keflavíkur/Víðis í 2.flokki karla voru dæmdir í leikbann eftir að hafa fengið rauð spjöld í leik gegn Víkingi R. sem fram fór 12. júní.

Samkvæmt leikskýrslu leiksins virðist vera sem að leikurinn hafi verið flautaður af áður en leiktíminn var allur. Þá höfðu þessir fjórir leikmenn fengið rauð spjöld sem og einn af starfsmönnum liðsins, Sigurður Hilmar Guðjónsson titlaður aðstoðarþjálfari liðsins.

Tveir leikmenn Keflavíkur/Víðis fengu rautt spjald í fyrri hálfleik. Þeir Ragnar Ingi Másson og Axel Ingi Auðunsson en sá síðarnefndi var varamaður í leiknum samkvæmt leikskýrslu á vef KSÍ.

Leikurinn er skráður 3-0 án markaskorara í leikskýrslunni á vef KSÍ en í reglugerð KSÍ segir:

„Verði leikmenn liðs færri en 7 skal dómari slíta leiknum. Viðkomandi lið telst hafa tapað leiknum 0 - 3 nema staðan hafi verið óhagstæðari fyrir liðið og skal þá sú staða skráð sem úrslit leiksins."

Svo virðist sem dómari leiksins hafi mistúlkað reglurnar þar sem enn voru sjö leikmenn eftir í liði Keflavíkur/Víðis þrátt fyrir að fimm rauð spjöld hafi litið dagsins ljós.

„Málið er enn í skoðun og var málið ekki klárað á funda aga- og úrskurðarnefndar í gær," sagði Birkir Sveinsson mótastjóri KSÍ. Aðspurður hvort leikurinn hafi verið flautaður af áður en leiktímanum lauk gat Birkir ekki svarað því nákvæmlega. Hann segir að KSÍ hafi borist misvísandi upplýsingar um það hvort leikurinn hafi verið flautaður af fyrr en áætlað var og það mál sé til skoðunar.

Í seinni hálfleik fengu þeir Bjartur Logi Kristinsson og Guðmundur Freyr Sigurðsson að líta rauða spjaldið og því voru gestirnir orðnir sjö talsins. Auk þess fékk aðstoðarþjálfari liðsins, Sigurður Hilmar Guðjónsson rautt spjald á sama tíma og Guðmundur Freyr fékk sitt rauða spjald á 75. mínútu.

Allir voru þeir úrskurðaðir í leikbann á fundi aga- og úrskurðarnefndar sem fram fór í gær. Þar á meðal var, Sigurður Hilmar dæmdur í tveggja leikja bann.

Á sama fundi var Keflavík/Víðir sektað um 22.500 kr. Þar kemur fram að þjálfari Keflavíkur/Víðis hafi einnig fengið brottvísun í leiknum og er félagið sektað um 10.000 kr. fyrir þá brottvísun. Þá er félagið sektað um 12.500 kr. fyrir 16 refsistig fyrir rauðuspjöldin fimm.

Sjá leikskýrsluna frá leiknum.
Athugasemdir
banner
banner
banner