mið 19. júní 2019 19:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Versta stund Choudhury á ferlinum
Mynd: Getty Images
Hamza Choudhury, miðjumaður Leicester, fékk að líta rauða spjaldið fyrir ljóta tæklingu í leik Englands og Frakklands á EM U21 landsliða í gærkvöldi.

Phil Foden kom Englandi 1-0 yfir áður en Choudhury fékk að líta rauða spjaldið á 63. mínútu. Jonathan Ikone jafnaði í 1-1 á 89. mínútu og þegar rúmlega fjórar mínútur voru komnar yfir venjulegan leiktíma skoraði Aaron Wan-Bissaka, leikmaður Crystal Palace, sjálfsmark og Frakkar fengu öll stigin.

Þess má geta að Frakkar klúðruðu tveimur vítaspyrnum í leiknum.

Jonathan Bamba, leikmaður Frakklands, varð að fara af velli eftir tæklingu Choudhury. Hann þurfti að sækja sér læknisaðstoðar og mun hann ekki spila meira með á mótinu.

Eftir leikinn baðst Choudhury afsökunar. Hann segist ekki hafa verið að reyna að meiða Bamba.

„Ég sá boltann og ég reyndi að ná honum, en ég tímasetti tæklinguna ekki rétt."

„Ég held að mér hafi aldrei liðið jafn illa á ferlinum en núna. Ég brást strákunum og ég brást þjóðinn," sagði hann.
Athugasemdir
banner