Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 19. júní 2020 14:43
Magnús Már Einarsson
Tímamót í sögu kvennaknattspyrnunnar í Víkingi
Mynd tekin í Hæðagarðinum árið 1981.
Mynd tekin í Hæðagarðinum árið 1981.
Mynd: Víkingur R.
Víkingur R. hefur leik í Lengjudeild kvenna í kvöld þegar liðið mætir ÍA klukkan 19:15. Um er að ræða sögulegan leik hjá Víkingi.

Fréttatilkynning frá Víkingi R.
Segja má að ákveðin tímamót verði í sögu kvennaknattspyrnu hjá Knattspyrnufélaginu Víkingi í kvöld en þá verður flautað til leiks í fyrsta leik meistaraflokks kvenna á Íslandsmótinu í knattspyrnu, og um leið fyrsta heimaleik liðsins, frá árinu 1985.

Verður það í fyrsta sinn frá því herrans ári sem kvennalið leikur undir merki Víkings í Íslandsmóti, þ.e. þar sem leikið verður í fallegu rauðröndóttu Víkingstreyjunni, en eins og kunnugt er lauk góðu samstarfi Víkings og HK um rekstur sameiginlegs meistaraflokks síðasta haust eftir að hafa staðið frá árinu 2001.

Leikurinn fer fram í Víkinni, á teppinu á Heimavelli Hamingjunnar, klukkan 19:15, en þess má geta að síðasti heimaleikur liðsins fór fram á malarvellinum í Hólmgarði.

Íslandsmót kvenna í knattspyrnu var fyrst haldið árið 1972, en kvennalið Víkings hóf þátttöku árið 1981. Sumarið 1985 varð liðið efst í A-riðli annarrar deildarinnar og tryggði sæti í fyrstu deildinni að ári. Stjórn knattspyrnudeildar félagsins ákvað hins vegar að senda ekki lið til keppni í efstu deild árið eftir og var erfið fjárhagsstaða sögð ástæða ákvörðunarinnar. Liðið leystist því upp og gengu flestir leikmenn þess til liðs við KR sem fékk þar á einu bretti sterkan hóp sem varð síðar sigursæll í búningi Vesturbæjarliðsins. Þar á meðal voru kempurnar Helena Ólafsdóttir, Guðlaug Jónsdóttir og Klara Bjartmarz, nú framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands. Ekki sögðu þó allir leikmanna skilið við Víking heldur kepptu margar þeirra áfram fyrir hönd félagsins í handbolta og mynduðu ásamt fleirum það sem kalla má Gullaldarlið Víkings í kvennahandbolta sem varð Íslandsmeistari árin 1992, 1993 og 1994 og má þar nefna Ingu Láru Þórisdóttur, Heiðu Erlingsdóttur og Hjördísi Guðmundsdóttur.

Í kvöld heldur hins vegar saga meistaraflokks kvenna Víkings í knattspyrnu áfram þegar liðið tekur á móti ÍA í Lengjudeild kvenna. Lýkur þar með 35 ára keppnishléi Knattspyrnufélagsins Víkings í Íslandsmóti meistaraflokks kvenna í knattspyrnu.

Víkingar hvetja sem flesta að fjölmenna á völlinn og fagna þessum tímamótum.
Athugasemdir
banner
banner