Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 19. júní 2022 16:12
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Afturelding vann á Selfossi
Valur vann í Laugardalnum
Mynd: Hrefna Morthens
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það voru óvænt úrslit í Bestu deild kvenna í dag þegar Selfoss tók á móti Aftureldingu.


Leikið var á Selfossi og reyndist viðureignin nokkuð bragðdauf þar sem Jade Arianna Gentile gerði eina mark leiksins á 32. mínútu. Jade skoraði eftir frábært einstaklingsframtak og leiddi Afturelding í leikhlé.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af krafti en tókst ekki að setja boltann í netið. Þegar sóknarþungi Selfyssinga var sem mestur fékk Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir klaufalegt rautt spjald. Hún missti boltann frá sér sem aftasti varnarmaður og braut á Sólveigu Jóhannesdóttur Larsen sem var að sleppa í gegn.

Tíu Selfyssingar reyndu að jafna leikinn en inn vildi boltinn ekki þrátt fyrir nokkur flott færi. Niðurstaðan frábær sigur fyrir Aftureldingu í fallbaráttunni en gríðarlega svekkjandi fyrir Selfoss sem var refsað fyrir að eiga lélegan fyrri hálfleik.

Selfoss er búið að tapa fjórum af síðustu fimm deildarleikjum sínum og er um miðja deild með 14 stig eftir 10 umferðir. Afturelding er í botnsætinu með 6 stig.

Sjáðu textalýsinguna

Selfoss 0 - 1 Afturelding
0-1 Jade Arianna Gentile ('32)
Rautt spjald: Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir, Selfoss ('67)

KR vann þá sinn annan leik á tímabilinu og er komið með sjö stig eftir tíu umferðir. KR heimsótti Keflavík og úr varð fjörug viðureign sem byrjaði stórfurðulega.

Fyrst skoraði Caroline McCue van Slambrouck óheppilegt sjálfsmark fyrir Keflvíkinga. Hrikalegur varnarleikur skóp þetta mark en skömmu síðar jöfnuðu heimakonur eftir önnur skelfileg mistök.

Í þetta sinn var það Cornelia Baldi Sundelius, markvörður KR, sem gerðist sek. Hún ætlaði að grípa þægilega fyrirgjöf frá Kristrúni Ýr Hólm en missti boltann þess í stað bakvið sig og í netið. Afar klaufaleg byrjun á þessari viðureign og staðan jöfn eftir tæpan hálftíma. Cornelia bætti þó upp fyrir þessi mistök með stórkostlegri vörslu skömmu síðar og kom Rasamee Phonsongkham KR svo yfir.

Rasamee skoraði eftir laglegt einstaklingsframtak skömmu fyrir leikhlé og staðan 1-2 fyrir KR.

Keflavíkurstelpur mættu ákveðnari í síðari hálfleikinn og lágu á vörn KR stærstan hluta hálfleiksins án þess þó að skapa sér góð færi. Þegar tók að líða á leikinn setti Keflavík fleiri í sókn og refsuðu Vesturbæingar með marki eftir skyndisókn. Bergdís Fanney Einarsdóttir skaut þá boltanum í markmann og varnarmann áður en hann endaði í netinu.

Það er aðeins eitt skráð sjálfsmark í leiknum en þau eru mögulega þrjú talsins. 

Sjáðu textalýsinguna

Keflavík 1 - 3 KR
0-1 Caroline McCue Van Slambrouck ('10, sjálfsmark)
1-1 Kristrún Ýr Holm ('24)
1-2 Rasamee Phonsongkham ('40)
1-3 Bergdís Fanney Einarsdóttir ('85)

Að lokum var komið að stórleik þar sem Þróttur R. tók á móti Val.

Ásdís Karen Halldórsdóttir kom Vali yfir snemma leiks en fyrri hálfleikurinn var jafn og spennandi þar sem bæði lið sköpuðu sér fín færi án þess að bæta fleiri mörkum við.

Markamaskínan Katla Tryggvadóttir jafnaði í upphafi síðari hálfleiks eftir góða pressu Þróttara en Cyera Makenzie Hintzen skoraði mínútu síðar til að koma Val aftur yfir.

Cyera, sem bjó til fyrsta mark leiksins með góðri fyrirgjöf, skoraði eftir langa sendingu upp völlinn. Vörn Þróttar var í kaffipásu og fékk Cyera nægan tíma til að athafna sig og skora.

Staðan orðin 1-2 og héldu liðin áfram að berjast hart og eiga fín færi til skiptis en meira var ekki skorað. Valur komst nær því að bæta við heldur en Þróttur að jafna og vann mikilvægan sigur.

Valur er á toppi Bestu deildarinnar með 25 stig eftir 10 umferðir. Þróttur er með 16 stig.

Sjáðu textalýsinguna

Þróttur R. 1 - 2 Valur
0-1 Ásdís Karen Halldórsdóttir ('15)
1-1 Katla Tryggvadóttir ('47)
1-2 Cyera Makenzie Hintzen ('48)


Athugasemdir
banner
banner
banner