Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 19. júní 2022 18:06
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: ÍBV engin fyrirstaða fyrir Stjörnuna
Jasmín Erla Ingadóttir gerði tvö mörk og lagði upp eitt í dag
Jasmín Erla Ingadóttir gerði tvö mörk og lagði upp eitt í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan 4 - 0 ÍBV
1-0 Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir ('39 )
2-0 Jasmín Erla Ingadóttir ('51 )
3-0 Jasmín Erla Ingadóttir ('53 )
4-0 Katrín Ásbjörnsdóttir ('79 )
Lestu um leikinn

Stjarnan er komin upp í 3. sæti Bestu deildar kvenna eftir öruggan 4-0 sigur á ÍBV á Samsung-vellinum í dag. Heimakonur gengu á lagið í síðari hálfleiknum.

Það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn af meiri krafti og komu sér í nokkur álitleg færi. Kristín Erna Sigurlásdóttir setti boltann rétt framhjá af stuttu færi á 2. mínútu og þá átti Ameera Abdella Hussen skot í þverslá stuttu síðar.

Stjörnukonur unnu sig hægt og rólega inn í leikinn. Gyða Kristín Gunnarsdóttir átti skot í slá eftir hálftímaleik og níu mínútum síðar kom svo fyrsta markið er Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir átti þrumuskot af löngu færi sem fór yfir Lavinia Elisabeta Boanda og í netið.

Staðan 1-0 í hálfleik en það var mikill meðbyr með Stjörnunni eftir þetta mark.

Jasmín Erla Ingadóttir bætti við tveimur mörkum á tveimur mínútum í upphafi síðari hálfleiks. Fyrra markið kom með skalla eftir að Sædís Rún Heiðarsdóttir gaf boltann fyrir markið.

Vörn Eyjaliðsins galopnaðist í kjölfarið á öðru markinu og fékk því Jasmín færi á að gera þriðja markið stuttu síðar er hún fékk boltann vinstra megin í teignum og afgreiddi hún það á snyrtilegan hátt.

Katrín Ásbjörnsdóttir gerði síðan fjórða og síðasta mark leiksins á 79. mínútu. Jasmín var með boltann, náði að pota boltanum inn í teiginn og þar var Katrín mætt til að klára færið.

Lokatölur 4-0 á Samsungvellinum. Stjarnan í 3. sæti með 19 stig en ÍBV í 4. sæti með 17 stig. Þetta var síðasti leikur deildarinnar fyrir langt hlé en Evrópumót landsliða tekur nú við og er næsti leikur í Bestu-deildinni ekki fyrr en 28. júlí er Valur spilar við Stjörnuna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner