sun 19. júlí 2020 20:43
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ólafur Ingi fékk rautt eftir leik - Klár eftir tvær vikur
Ólafur Ingi Skúlason.
Ólafur Ingi Skúlason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Ingi Skúlason, spilandi aðstoðarþjálfari Fylkis, fékk að líta rauða spjaldið eftir 3-0 tap gegn KR í Pepsi Max-deildinni.

Ólafur Ingi var ósáttur við Helga Mikael Jónasson, dómara leiksins, og fékk rauða spjaldið frá honum er búið var að flauta til leiksloka.

Fyrrum landsliðsmaðurinn var eingöngu þjálfari í kvöld þar sem hann er að glíma við meiðsli. Atli Sveinn Þórarinsson, þjálfari Fylkis, sagði í viðtali að tvær vikur væru í að Ólafur myndi snúa aftur á völlinn.

Ólafur er líklega á leið í tveggja leikja bann þar sem þetta er hans annað rauða spjald á tímabilinu. Hann fékk einnig rautt í fyrsta leik gegn Stjörnunni.

Hann mun missa af leikjum gegn Val og HK, leikjum sem hann hefði væntanlega misst af sem leikmaður vegna meiðsla.

Hægt er að lesa um leik Fylkis og KR með því að smella hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner