Enska úrvalsdeildarfélagið Brighton hafnaði í gær kauptilboði frá AC Milan fyrir vinstri bakvörðinn Pervis Estupinan. Sky Sports greinir frá.
Milan er í leit að arftaka fyrir Theo Hernández sem var seldur til Al-Hilal fyrr í sumar og er Estupinan efstur á óskalistanum.
Brighton er með alltof marga vinstri bakverði og er því reiðubúið til að selja leikmanninn, en einungis fyrir rétt verð.
Milan fékk um 25 milljónir evra fyrir Hernández og er ekki reiðubúið til að eyða mikið hærri upphæð fyrir arftaka hans. Það gæti verið vandamál því Brighton er talið vilja um 40-50 milljónir evra (rúmlega 30 milljónir punda) fyrir bakvörðinn sinn.
Ekki er greint frá því hversu hátt kauptilboðið frá Milan var, en félögin eru enn í viðræðum. Estupinan, sem á tvö ár eftir af samningi hjá Brighton, er spenntur fyrir að skipta yfir í ítalska boltann.
Manchester United sýndi honum áhuga fyrr í sumar en talið er að Rauðu djöflarnir hafi ákveðið að snúa sér að öðrum skotmörkum.
Estupinan er 27 ára gamall og á 48 landsleiki að baki fyrir Ekvador.
Það eru ýmsir leikmenn á leið burt frá Brighton í sumar, þar sem AS Roma er til að mynda í viðræðum við félagið um Matt O'Riley og Evan Ferguson.
Athugasemdir