Gríntilboð í Ederson - Trafford gæti verið á heimleið - Simons í ensku úrvalsdeildina?
   lau 19. júlí 2025 16:45
Brynjar Ingi Erluson
De Bruyne æfði í 'tíunni' hans Maradona - „Kom mér á óvart“
De Bruyne í æfingafatnaðinum
De Bruyne í æfingafatnaðinum
Mynd: Napoli
Belgíski miðjumaðurinn Kevin de Bruyne klæddist óvænt 'tíunni' á æfingu ítalska félagsins Napoli á dögunum en hann segir það hafa komið sér skemmtilega á óvart.

Treyjunúmerið er það stærsta í sögu Napoli en argentínska goðsögnin Diego Armando Maradona klæddist því númeri þau sjö ár sem hann spilaði þar.

Tenging Maradona við Napoli var sérstök. Argentínumaðurinn er dýrkaður og dáður í borginni, svo mikið að félagið lagði tíuna á hilluna árið 2000, til heiðurs Maradona.

Á dögunum birtust myndir af De Bruyne á æfingu með Napoli, en það vakti athygli að æfingafatnaður hans var merktur tíunni og var hann því spurður út í þá upplifun á blaðamannafundi í dag.

„Ég verð að segja að það hafi komið mér á óvart en á sama tíma mikill heiður því ég vissi að þeir höfðu lagt númerið á hilluna. Þetta er mikill heiður frá liðinu og félaginu að gefa mér þessa ábyrgð.“

„Ég held að það fylgi þessu ekki meiri pressa. Það er alltaf press að spila fyrir stórt félag eins og Napoli. Það er lið sem vill vinna og þú sem leikmaður, og sem lið veist hvað þú þarft að gera, en ég trúi ekki að númer eða eitthvað annað muni bæta við þá pressu.“

„Maradona er Maradona. Hann er ein af goðsögnum leiksins, og hann og Napoli eru eitt. Ég er þakklátur og stoltur, en ég er minn eigin leikmaður. Ég ætla að gera mitt allra besta og vonandi get ég fært liðinu, borginni og stuðningsmönnum gleði með góðri frammistöðu,“
sagði De Bruyne.

Ítalska félagið hefur ekki tjáð sig til þessa um hvort númerið verði tekið af hillunni fyrir komandi tímabil. Það myndi eflaust ekki leggjast vel í harða stuðningsmenn Napoli, enda allt heilagt þegar kemur að Maradona.
Athugasemdir
banner
banner