Gríntilboð í Ederson - Trafford gæti verið á heimleið - Simons í ensku úrvalsdeildina?
   lau 19. júlí 2025 22:02
Ívan Guðjón Baldursson
EM kvenna: Tíu Þjóðverjar slógu Frakka úr leik
EM KVK 2025
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Frakkland 1 - 1 Þýskaland
1-0 Grace Geyoro ('15, víti)
1-1 Sjoeke Nusken ('25)
Rautt spjald: Kathrin Hendrich, Þýskaland ('13)

Frakkland og Þýskaland áttust við í 8-liða úrslitum Evrópumótsins í kvöld og úr varð ótrúlegur leikur sem fór afar illa af stað fyrir þær þýsku. Kathrin Hendrich fékk að líta beint rautt spjald strax á tólftu mínútu leiksins fyrir að rífa harkalega í hárið á Griedge Mbock innan vítateigs.

Dómari leiksins missti af atvikinu en það var endurskoðað og vítaspyrna dæmd. Beint rautt spjald á Hendrich og skoraði Grace Geyoro úr vítaspyrnunni þó að Ann-Katrin Berger hafi verið með fingurgómana í boltanum.

Tíu Þjóðverjum tókst þó að jafna metin tíu mínútum síðar, þegar Sjoeke Nüsken stangaði hornspyrnu í netið.

Frakkar, sem höfðu verið sterkari aðilinn í upphafi leiks, náðu ekki að skapa sér góð færi gegn tíu Þjóðverjum og var staðan jöfn 1-1 í leikhlé. Þær frönsku settu boltann í netið en ekki dæmt mark vegna rangstöðu og endurtók leikurinn sig í síðari hálfleik.

Frakkland var mikið með boltann en tókst ekki að skapa mikið. Þegar þær frönsku fengu færi þá var Berger tilbúin til að verja og var hún eflaust besti leikmaður vallarins í venjulegum leiktíma með sjö vörslur. Enginn annar markvörður hefur varið jafn mörg skot í einum leik á mótinu í Sviss hingað til.

Þýskaland fékk besta færið í seinni hálfleik þegar vítaspyrna var dæmd. Selma Bacha braut klaufalega af sér innan vítateigs og steik Nüsken á punktinn, en klúðraði. Pauline Peyraud-Magnin varði slaka spyrnu frá Nüsken til að halda stöðunni jafnri.

Lokatölur urðu 1-1 eftir venjulegan leiktíma svo grípa þurfti til framlengingar og tókst þreyttum Þjóðverjum að halda út alla leið í vítaspyrnukeppni. Berger var í lykilhlutverki þar og átti markvörslu mótsins þegar hún varði skot sem breytti um stefnu af varnarmanni. Ótrúleg markvarsla. Melvine Malard átti þá skalla í slá með síðustu snertingu í uppbótartíma.

Þá var ótrúlega mikið af brotum í þessari viðureign og voru þau 50 talsins í heildina, en aðeins eitt rautt spjald og fimm gul sem litu dagsins ljós.

Í vítaspyrnukeppninni brenndi Amel Majri fyrstu vítaspyrnu Frakka af með slöku skoti sem Berger varði. Allir skoruðu sem stigu á punktinn á eftir henni þar til Sara Dabritz skaut í slá úr fjórðu spyrnu Þjóðverja.

Berger steig sjálf á punktinn til að taka fimmtu spyrnu Þýskalands og skoraði, en Frakkar skoruðu einnig úr sinni spyrnu. Í bráðabananum skoruðu bæði lið þar Sjoeke Nüsken steig meðal annars aftur á punktinn og skoraði. Þrjár spyrnur í röð fóru í netið þar til röðin var komin að Alice Sombath.

Berger varði vel frá Sombath og innsiglaði þannig ótrúlegan sigur þar sem hún var í hlutverki þjóðarhetju.

Þýskaland mætir Spáni í undanúrslitum á meðan þær frönsku fara sárar heim eftir að hafa gert gott mót hingað til.
Athugasemdir
banner