Brentford gæti lent í vandræðum á leikmannamarkaðinum í sumar eftir að lykilmenn verða seldir frá félaginu.
Bryan Mbeumo er á leið til Manchester United og vill Yoane Wissa ólmur fara í ljósi þess mikla áhuga sem er á honum frá öðrum félögum í ensku úrvalsdeildinni.
Því vantar liðinu minnst einn nýjan kantmann til að fylla í skarðið og var Omari Hutchinson efstur á óskalista Brentford. Hann var með 35 milljóna punda riftunarákvæði í samningi sínum við Ipswich Town sem féll niður um deild, en það ákvæði var einungis í gildi til 15. júlí.
Brentford bauð 35 milljónir fyrir Hutchinson á lokadeginum áður en ákvæðið átti að renna út, en tókst ekki að ná samkomulagi við Ipswich um greiðsludreifingu.
Hutchinson varð því eftir hjá Ipswich sem vill ekki selja einn af sínum bestu leikmönnum í sumar. Ipswich býst þó við að Brentford muni koma aftur með endurbætt tilboð fyrir leikmanninn.
Þetta eru slæmar fréttir fyrir Brentford sem er nú þegar búið að missa Christian Nörgaard fyrirliða og Thomas Frank þjálfara frá sér í sumar, auk markvarðarins Mark Flekken.
Brentford er búið að kaupa Antoni Milambo, Michael Kayode og Caoimhín Kelleher í sumar, auk Jordan Henderson sem kom til félagsins á frjálsri sölu.
Hutchinson er 21 árs gamall og getur bæði leikið sem sóknartengiliður eða kantmaður. Hann lék sem fremsti sóknarmaður í fremstu víglínu hjá U21 landsliði Englands sem vann EM í sumar.
Hann byrjaði alla leikina á EM nema einn og skoraði í úrslitaleiknum.
Athugasemdir