Fernando Carro, framkvæmdastjóri Bayer Leverkusen, á mjög erfitt með að skilja ummæli Hans-Joachim Watzke, kollega hans hjá Borussia Dortmund, um ákvörðun Florian Wirtz að fara til Liverpool.
Wirtz ákvað að fara til Liverpool í stað þess að ganga í raðir Bayern München í sumar.
Þetta kom flatt upp á stjórnarmenn Bayern sem töldu það nánast öruggt að Wirtz kæmi frá Leverkusen, en þýski landsliðsmaðurinn vildi heldur reyna fyrir sér á Englandi.
Watzke sagði í síðasta mánuði að skiptin væru slæm fyrir þýsku deildina.
„Þetta er synd, sérstaklega fyrir þýska fótboltasambandið, að leikmaður eins og Florian Wirtz sé á förum úr Bundesligunni. Ég hefði ekki verið á móti því hefði hann farið til Bayern. Það hefði verið betra fyrir deildina. Þetta skiptir svosem engu máli fyrir landsliðið því hann mun spila á hæsta stigi hjá Liverpool, en hann hefði getað náð betri tengingu við Musiala í München. Að vísu ná góðir fótboltamenn alltaf að tengja hvort sem er,“ sagði Watzke.
Carro hefur furðað sig á þessum ummælum Watzke og segist vera hæst ánægður með að Wirtz hafi farið annað.
„Ég hef allt aðra skoðun en Watzke. Ég get ekki skilið hvernig hann, sem framkvæmdastjóri Borussia Dortmund, hefði getað verið ánægður með að Wirtz færi til Bayern. Það hefði gert Bayern enn sterkara. Ég vil spennandi Bundesligu og er ég ánægður þegar fleiri félög – fyrir utan okkur – gera Bayern lífið leitt. Ég er á þeirri skoðun að deildin hagnist á þessu,“ sagði Carro við Welt Am Sonntag.
Athugasemdir