sun 19. ágúst 2018 17:45
Ívan Guðjón Baldursson
Mourinho neitar að gagnrýna leikmenn
Mynd: Getty Images
Jose Mourinho var vonsvikinn eftir 3-2 tap Manchester United gegn Brighton í enska boltanum í dag.

Brighton komst í 2-0 á fyrsta hálftímanum en Romelu Lukaku minnkaði muninn. Heimamenn náðu svo að pota inn þriðja markinu rétt fyrir leikhlé og telur Mourinho það hafa verið rothögg fyrir sína menn.

„Við gerðum alltof mörg mistök og þeir refsuðu okkur. Stundum gerir maður mistök án þess að manni sé refsað, en þeir refsuðu fyrir hver einustu mistök," sagði Mourinho.

„Við gerðum ótrúleg mistök á mikilvægum stundum, sérstaklega í þriðja markinu sem kom rétt fyrir leikhlé. Það var þungt högg.

„Við áttum góða viku á æfingasvæðinu og ég bjóst við betri frammistöðu. Við gerðum fáránleg mistök sem skemmdu leikinn fyrir okkur."


Mourinho var spurður út í hvaða einstaklingar hefðu mátt gera betur í leiknum.

„Sjáið til. Þegar ég tala um einstaklingsframmistöður þá fæ ég ekki frið í fjölmiðlum. Núna veit ég betur, ég ætla bara að tala um einstaklinga þegar þeim gengur vel. Ég veit að sigurviljinn er til staðar, svo ég get ekki gagnrýnt þá fyrir áhugaleysi."

Portúgalinn hafði fulla trú á því að sínir menn væru að fara að koma til baka eftir markið hans Lukaku á 34. mínútu.

„Þegar við skoruðum okkar fyrsta mark trúði ég að við gætum unnið þennan leik. Svo fáum þetta þriðja mark á okkur rétt fyrir leikhlé á fáránlegan hátt, það drap okkur."
Athugasemdir
banner
banner