mán 19. september 2022 10:16
Elvar Geir Magnússon
Kláruðu síðustu mínúturnar á vellinum við hliðina á eftir að flóðljósin gáfu sig
Síðustu mínúturnar voru kláraðar á öðrum velli.
Síðustu mínúturnar voru kláraðar á öðrum velli.
Mynd: Heri Árnason Simonsen
Færeyska liðið B36 í Þórshöfn vann 5-0 sigur gegn Skála í Betri deildinni á föstudagskvöld. Ákveðið var að leikurinn skyldi vera spilaður á þjóðarleikvangi Færeyja í Þórshöfn frekar en á heimavelli B36. Ástæðan er sú að flóðljósin eru öflugri á þjóðarleikvangnum.

Á 86. mínútu leiksins greip kaldhæðnin í taumana þegar flóðljósin á vellinum gáfu sig skyndilega.

Eftir samræður milli Rúni Gaardbo dómara og liðanna tveggja var ákveðið að skokka yfir á heimavöll B36 sem er nokkrum metrum frá og klára leikinn þar.

Liðin og áhorfendur röltu yfir og síðustu fjórar mínútur venjulegs leiktíma auk fjögurra mínútna í uppbótartíma voru spilaðar á öðrum velli. Eitthvað sem hlýtur að teljast einsdæmi í efstu deild.

Úr færeyska fótboltanum er það annars að frétta að KÍ frá Klaksvík tryggði sér meistaratitilinn annað árið í röð um helgina og í 20. skipti alls.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner