fös 19. nóvember 2021 21:00
Victor Pálsson
Birkir um Gary Martin: Menn halda að hann sé mun erfiðari en hann er
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már Sævarsson, leikmaður Vals, var í ítarlegu spjalli hér á Fótbolta.net í vikunni er hann fór yfir frábæran feril með Sæbirni Steinke.

Birkir er nýhættur með íslenska landsliðinu en hann lék alls 103 landsleiki en hans síðasti var gegn Norður-Makedóníu fyrr í þessum mánuði.

Birkir lék lengi sem atvinnumaður fyrir bæði Brann og Hammarby en gekk aftur í raðir Vals árið 2018 og hefur reynst liðinu mjög mikilvægur.

Bakvörðurinn ræddi á meðal annars Gary Martin málið stóra en Gary samdi við Val árið 2019 og var svo farinn stuttu síðar til ÍBV og skoraði þar 12 mörk í 12 leikjum á sínu fyrsta tímabili.

Gary skoraði tvö mörk í þremur leikjum fyrir Val en var svo látinn fara og var það ákvörðun Ólafs Jóhannessonar sem þjálfaði liðið á þessum tíma.

Gengi Vals var ekki merkilegt á því tímabili og hafnaði liðið í sjötta sæti deildarinnar.

Birkir var spurður út í það hvort mál Gary Martin hafi truflað leikmenn á þessu tímabili en hann tók ekki eftir því og hrósaði á sama tóma Englendingnum sem er oft sagður mjög erfiður inni í klefa.

„Nei þetta truflaði mig ekki. Þetta var leiðinlegt, það var ekkert vesen með Gary inn í klefa. Ég held að menn haldi að hann sé mun erfiðari en hann er," sagði Birkir.

„Það var alls ekkert vandamál í klefanum, hann er frábær náungi og vildi gera allt til að ná árangri í Val. Svo kemur eitthvað upp á einhvers staðar þarna sem ég veit ekki ennþá hvað er. Það hefur enginn útskýrt það og það þarf ekkert að gera það, það er tekin einhver ákvörðun."

„Þetta truflaði ekki þannig leikmannahópinn en það er leiðinlegt þegar það koma svona neikvæðar fréttir og svona. Sérstaklega fyrir mig sem Valsara er það leiðinlegt þegar það er hiti í kringum klúbbinn."

Sjá einnig:
Birkir Már - Farið yfir ferilinn með Vindinum
Birkir Már - Farið yfir ferilinn með Vindinum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner