fös 19. nóvember 2021 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Klopp um Gerrard: Ótrúlega ánægður fyrir hans hönd
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, segist afar ánægður fyrir hönd Steven Gerrard en Englendingurinn tók við Aston Villa á dögunum.

Gerrard, sem er uppalinn í Liverpool-borg, lék allan sinn feril á Englandi hjá Liverpool áður en hann fór til Bandaríkjanna og kláraði ferilinn hjá Los Angeles Galaxy.

Hann hefur gert góða hluti eftir ferilinn og tókst að gera Rangers að Skotlandsmeisturum á síðasta tímabili. Hann fær nú tækifærið að reyna fyrir sér í ensku úrvalsdeildinni hjá Villa og er Klopp spenntur að sjá hvað hann mun gera.

Villa mætir Liverpool þann 11. desember en þá verður allt lagt til hliðar.

„Ég er svo ánægður fyrir hans hönd, svona ef ég á að vera hreinskilinn. Ég veit að hann elskaði starfið hjá Rangers en svona eru hlutirnir. Þegar þú færð tækifæri til að vinna í ensku úrvalsdeildinni þá myndi hver einasti þjálfari í heiminum íhuga það alvarlega

„Hann hlýtur að vera í skýjunum með þetta því Aston Villa er stór klúbbur. Þetta er stórt tækifæri fyrir hann og fyrir félagið."

„Við mætumst eftir nokkrar vikur. Ég sendi honum auðvitað skilaboð og við skrifuðumst aðeins á. Þetta er mjög gott og ég er spenntur að mæta honum. Ég mun núna fylgjast aðeins betur með leikjum Villa en burtséð frá því þá verður þetta öðruvísi þegar við mætumst. Það er þannig með hann líka og það er í góðu, það verður að vera þannig. Við verðum að leggja allt til hliðar þessar 95 mínútur, þannig er það nú bara,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner