Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 19. nóvember 2021 12:55
Elvar Geir Magnússon
„Stuðningsmenn Liverpool hafa áhyggjur af janúar"
Mohamed Salah.
Mohamed Salah.
Mynd: EPA
Sadio Mane.
Sadio Mane.
Mynd: Getty Images
Neil Jones, sérfræðingur Goal um Liverpool, segir að Jurgen Klopp og hans menn geti ekki látið mistök á leikmannamarkaðnum endurtaka sig.

„Það er enn nóvember, desember er pakkaður en það er janúar sem flestir stuðningsmenn Liverpool hafa áhyggjur af," skrifar Jones í pistli sem birtist í dag.

„Það er oft fyrsti mánuðurinn á nýju ári sem reynist liðinu erfiður. Það er mánuðurinn þar sem hallað hefur undan fæti í titilbaráttunni, bikardraumar hafa hafa orðið að engu, meiðsli hrannast upp og gengið versnað. Mun sagan endurtaka sig 2022?"

„Liverpool hefur byrjað tímabilið nokkuð vel, er fjórum stigum frá toppi deildarinnar og rúllað í gegnum riðilinn í Meistaradeildinni. En stóru prófin bíða, og það er nóg af þeim."

„Á næstu tólf vikum, frá því núna og þar til 5. febrúar, mun Liverpool spila að minnsta kosti átján leiki. Þeir gætu orðið þremur fleiri ef sigur vinnst gegn Leicester í 8-liða úrslitum Carabao bikarsins í næsta mánuði og í þriðju umferð FA-bikarsins í byrjun janúar."

„Það er þegar farið að reyna á leikmannahópinn og það eykst í janúar þegar Afríkukeppnin mun taka Mohamed Salah, Sadio Mane og Naby Keita í burtu. Egyptaland með Salah og Senegal með Mane eru meðal sigurstranglegustu liða mótsins sem þýðir að þeir gætu verið fjarverandi í allt að sex vikur."

Liverpool vonast enn eftir því að þeir geti spilað gegn Leicester 28. desember og gegn Chelsea 2. janúar en það hefur ekki fengist staðfest hvenær þeir þurfa að fara.

„Liverpool hefur þegar misst af ellefu stigum á þessu tímabili, þar á meðal sjö í síðustu fimm deildarleikjum. Hin ógnarsterku lið Chelsea og Manchester City eru á toppnum. Liverpool var á toppnum á Jóladegi í fyrra en unnu aðeins þrjá af næstu fjórtán deildarleikjum og runnu úr titilbaráttunni. Öflugur lokasprettur bjargaði Meistaradeildarsæti," skrifar Jones.

„Það voru að mestu meiðsli sem kostuðu. Heppnin var ekki með Liverpool en liðið gerði mörg mistök. Spurningamerki voru sett við breytingar Klopp milli leikja á haustmánuðum. Þeir hefðu átt að kaupa varnarmann í byrjun janúargluggans en geymdu það þar til í lok hans. Þá komu Ben Davies og Ozan Kabak sem báðir geta í besta falli flokkast sem tímabundin lausn. Liðið var út úr titilbaráttunni, úr leik í FA-bikarnum og hafði misst þriðja miðvörðinn í meiðsli út tímabilið. Hik varð sama og tap."

Jones telur að Liverpool þurfi nauðsynlega á sóknarmanni að halda í janúar, og það strax í byrjun mánaðarins en ekki í lok hans.

„Klopp getur talað um að í Divock Origi og Takumi Minamino hafi hann nægilega góða varakosti. Síðustu tvö tímabil sýna hinsvegar allt annað. Minamino hefur skorað þrjú mörk í deildabikarnum á tímabilinu en hefur spilað þrettán mínútur í úrvalsdeildinni síðan í desember. Sárabótamark Origi gegn West Ham fyrri landsleikjagluggann var hans fyrsta deildarmark í meira en fimmtán mánuði."

„Báðir hefðu verið seldir í sumar hefðu nægilega góð tilboð borist. En nú þarf liðið á báðum að halda á komandi vikum. Báðir hafa gert vel þær fáu mínútur sem þeir hafa fengið á tímabilinu en í janúar gæti þurft að treysta þeim fyrir því að halda titilvonum liðsins á lífi."

„Það er teygt sig langt í að biðja miðjumann, Alex Oxlade-Chamberlain eða Curtis Jones, eða ungan mann eins og Kaide Gordon að fara upp og skila einhverju. Auðvitað er Liverpool með Diogo Joata og Roberto Firmino þrátt fyrir að sá síðarnefndi sé nú að jafna sig meiðslum en að missa Salah eða Mane, hvað þá báða, skilur eftir sig stór skörð."

„Hversu mikið mun liðið sakna hraða þeirra, líkamsburða og ógnunar. Hversu mikið verður þess saknað hversu mikla hræðslu þeir skapa hjá mótherjunum. Liverpool hefði líklega þurft að kaupa sóknarmann síðasta sumar en félagið þarf að bregðast við í janúar. Það gæti reynst dýrkeypt ef það er ekki gert, rétt eins og á síðasta tímabili," segir Neil Jones.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner