mið 19. desember 2018 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Buffon hefði lagt hanskana á hilluna ef ekki fyrir PSG
Mynd: Getty Images
Það kom mörgum á óvart þegar félagaskipti Gianluigi Buffon til Paris Saint-Germain voru tilkynnt síðasta sumar.

Buffon var þá orðinn 40 ára gamall og skrifaði óvænt undir tveggja ára samning við franska stórveldið.

„Ég var búinn að ákveða að leggja hanskana á hilluna eftir tímabilið. Í mínum huga voru bara þrjú félög í heimi sem gátu breytt þessari ákvörðun minni - Barcelona, Real Madrid og PSG," sagði Buffon við RMC.

„Ég taldi engar líkur á því að þessi félög myndu reyna að fá mig og var byrjaður að skipuleggja líf mitt eftir atvinnumennskuna. Í maí fékk ég svo símtal frá PSG og hugsaði mig um í tvær vikur áður en ég tók ákvörðun."

Buffon hefur unnið flestar keppnir sem eru í boði en Meistaradeildin hefur runnið honum úr greipum nokkrum sinnum.

„Ég hef reynt að vinna Meistaradeildina síðustu 24 ár en án árangurs. Þetta er gríðarlega erfið keppni og það er kannski of háleitt markmið að ætla sér að vinna hana. Við erum þó komnir í útsláttarkeppnina og erum einu skrefi nær úrslitaleiknum."

Buffon býst ekki við að spila meira í atvinnumennsku þegar samningur hans við PSG rennur út sumarið 2020.

„Ég held að PSG verði síðasta félagið sem ég spila fyrir. Þetta var gjöf til mín frá lífinu, þetta voru verðlaun fyrir að haga mér fagmannlega í gegnum tíðina. Ég vil ekki fara til félags sem er ekki í hæsta gæðaflokki, ég byrjaði á toppnum og ætla að enda á toppnum."
Athugasemdir
banner
banner