Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 19. desember 2018 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
HM félagsliða: River Plate úr leik
Mynd: Getty Images
Suður-Ameríkumeistararnir í River Plate duttu úr leik í HM félagsliða í gær er þeir töpuðu gegn Marcus Berg og félögum í Al Ain eftir vítaspyrnukeppni.

Liðin mættust í undanúrslitaleik mótsins og þurfti Al Ain að sigra tvo andstæðinga til að komast þangað á meðan River Plate fékk beinan þátttökurétt í undanúrslitum, líkt og Real Madrid.

Al Ain lagði Team Wellington að velli í 16-liða úrslitum og Esperance Tunis í 8-liða og er nú komið í úrslitaleikinn sem verður annað hvort gegn japanska liðinu Kashima eða Real Madrid.

Marcus Berg kom Al Ain yfir snemma gegn River Plate en Rafael Borre skoraði tvennu og kom sínum mönnum yfir skömmu síðar.

Caio jafnaði fyrir Al Ain en River Plate gat stolið sigrinum þegar Gonzalo Martinez steig á vítapunktinn á 69. mínútu. Martinez klúðraði og var staðan 2-2 eftir venjulegan leiktíma.

Hvorugu liði tókst að skora í framlengingunni svo gripið var til vítaspyrnukeppni, þar sem Enzo Perez klúðraði síðustu spyrnu River Plate, sem mun keppa um bronsið.

Esperance Tunis hreppti þá fimmta sætið eftir sigur í vítaspyrnukeppni gegn Chivas frá Guadalajara í Mexíkó.

River Plate 2 - 2 Al Ain (4-5 í vítaspyrnukeppni)
0-1 Marcus Berg ('3)
1-1 Rafael Borre ('11)
2-1 Rafael Borre ('16)
2-2 Caio ('51)

Esperance 1 - 1 Chivas (6-5 í vítaspyrnukeppni)
0-1 W. Sandoval ('5, víti)
1-1 Y. Belaili ('38, víti)
Rautt spjald: A. Badri, Esperance ('79)
Rautt spjald: H. Rabi, Esperance ('96)

Athugasemdir
banner
banner